Innlent

Tvær líkamsárásir í miðborginni

Nóg var að gera hjá lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu í nótt en mörg útköll voru vegna hávaða og ölvunar. Um klukkan tvö í nótt var tilkynnt um líkamsárás við veitingastað við Laugaveg á milli tveggja einstaklinga og dyravarðar. Þá var tilkynnt um líkamsárás við skemmtistað í Bankastræti um klukkan fjögur. Þar var maður sleginn í andlitið en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var hann í mjög annarlegu ástandi og vildi ekki aðstoð sjúkrabifreiðar. Þegar lögreglumenn kynntu honum þá að ekkert yrði gert frekar í málinu fór hann að atast í lögreglumönnum og hóta þeim. Hann var handtekinn og var látinn sofa úr sér í nótt.

Þá voru tveir teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í nótt og tveir undir áhrifum fíkniefna, einn af þeim var á ótryggðu ökutæki, án ökuréttinda og hafði röng skráningarnúmer, sitthvort númerið aftan á og framan á bílnum. Tekin var skýrsla af manninum og honum síðan sleppt. Númerin voru tekin af bifreiðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×