Skoðun

Hagsmunir ríkissjóðs

Árni Gunnarsson skrifar
Ýmislegt hefur komið fram í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um þær fyrirætlanir stjórnvalda að hækka virðisaukaskatt á gistingu úr 7% í 25,5%. Margt mjög málefnalegt og annað miður eins og gengur. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála og varabæjarfulltrúi Vinstri Grænna á Akureyri, ritar meðal annars grein um málið í Fréttablaðinu þar sem hann veltir þessu máli fyrir sér. Í samanburði á skýrslu KPMG og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands telur hann að KPMG taki nokkuð þröngt á málum en Hagfræðistofnun líti hins vegar almennt á málið.

En ef hins vegar rýnt er í skýrslurnar þá kemur í ljós að Hagfræðistofnun lítur einmitt eingöngu til áhrifa þess að hækka virðisaukaskattinn á gistingu á tekjur ríkissjóð en veltir ekki fyrir sér hvaða önnur áhrif þessi breyting hefur á aðrar tekjur ríkissjóðs. Skýrsla KPMG leitast einmitt við að meta heildaráhrifin af þessari breytingu á tekjur ríkissjóðs en það hlýtur jú að vera það sem skiptir þjóðhagslega mestu máli og vera þá mun víðara sjónarhorn en það sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands velur sér.

Báðar skýrslur gera ráð fyrir að verðteygni sé á markaði þó mismikið. Bent hefur verið á að bæði fyrir hrun og eftir hafi ferðamönnum og gistinóttum fjölgað en eins og tölur sýna þá fjölgar þeim mun meira eftir hrun en fyrir. Ein af ástæðum þess sem farþegar sem komið hafa til landsins eftir hrun hafa gefið upp sem ástæðu fyrir ferð til Íslands er lágt gengi íslensku krónunnar og þar með hagstæðara verðlag. Það hlýtur þá að vera hægt að gera ráð fyrir því að verðteygni virki í báðar áttir, þannig að þegar verðlag hækkar þá muni eftirspurn minnka.

Skýrsla KPMG metur þessi áhrif með varfærni með því að segja að fyrir hvert prósentustig sem verð hækkar um minnki eftirspurn um 0,49 þó erlendar rannsóknir og reynsla Icelandair sýni að þessi verðteygni geti verið allt að einn á móti einn. Skýrsla Hagfræðistofnunar gerir hins vegar ekki ráð fyrir að eftirspurn minnki um nema 2% við þessa breytingu. Hér má spyrja sig hvort gististaðaeigendur í landinu séu almennt ekkert sérstaklega góðir rekstrarmenn ef það er raunin að hækkun gistiverðs um rúmlega 17% hafi einungis 2% áhrif á eftirspurn. Er líklegt að gististaðaeigendur í landinu séu á hverjum degi að skilja eftir 15% af mögulegum auknum tekjum sem þeir ella gætu fengið í sinn hlut?

Edward telur í sinni grein að SAF hafi almennt óþol gegn skattahækkunum og að þar ráði pólitísk sjónarmið. Samtök ferðaþjónustunnar hafa í kjölfar hrunsins, líkt og Samtök atvinnulífsins, talað fyrir blandaðri leið aukinnar skattheimtu og aukinna umsvifa atvinnulífsins til að koma ríkissjóði á réttan kjöl. Það þarf hins vegar ekki að horfa til nema einfalds Laffer-ferils til að átta sig á því að hér getur of mikil hækkun skatta orðið til þess að tekjur ríkissjóðs verði minni en ella og það er einmitt sú niðurstaða sem við í ferðaþjónustunni höfum áhyggjur af að verði með þessari breytingu.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur að auðvelt aðgengi að svörtum markaði sé meðal annars rök fyrir því að skattleggja atvinnustarfsemi mismunandi. Þessi rök hljóta að vega þungt þegar talið er að hátt í 1.500 rúm séu í útleigu hér á landi sem ekki eru skráð og skila því engum gjöldum. Ríkisskattstjóri talaði um það í Fréttablaðinu að það virðist ansi margir vera að koma inn í ferðaþjónustuna sem ekki eru með sín mál í lagi. Hvati þeirra til að vera með sín mál í lagi við þessa fyrirhuguðu breytingu mun væntanlega ekki aukast.

Jafnræði er líka mikilvægt í þessum geira og er þá rétt að horfa til þess hvernig þetta er í okkar nágrannalöndum, þar er nánast undantekningalaust gisting í lægra skattþrepi. Í Danmörku er gisting í hærra skattþrepi og líður gisting í Danmörku mikið fyrir það, m.a. fækkaði gistinóttum í júlí síðastliðnum um 900.000 miðað við sama mánuð í fyrra.

KPMG gerir ráð fyrir að heildartekjur samfélagsins af erlendum ferðamönnum án flugfargjalda gætu lækkað um 10 til 28 milljarða króna ef af þessum breytingum verður. Það er því ekki síst með hagsmuni ríkissjóðs að leiðarljósi sem við í ferðaþjónustunni höfum áhyggjur af þessari breytingu. Ferðaþjónustan teygir anga sína víða og áhrif breytinga í eftirspurn hefur ekki bara áhrif á einstakar greinar ferðaþjónustunnar heldur einnig á stóran hluta þjóðfélagsins.




Skoðun

Sjá meira


×