Skoðun

Opinber stuðningur til fráskilinna foreldra

Oktavía Guðmundsdóttir skrifar
Árið 2010 voru lögskilnaðir 563 og sama ár urðu sambúðarslit 594. Lögskilnaðirnir snertu 641 barn en í sambúðarslitum var 371 barn.

Skilnaður hefur í för með sér breytingar á daglegu lífi fjölskyldunnar, ekki síst fyrir börnin, sem óska þess sjaldnast að fjölskyldan splundrist. Margt breytist hjá barni í kjölfar skilnaðar, fyrir utan að missa annað foreldri af heimilinu, verða oft breytingar á nánasta umhverfi, svo sem flutningar og skólaskipti. Samvistarslitum fylgja tilfinningalegir, fjárhagslegir og félagslegir erfiðleikar, mismiklir en aldrei auðveldir.

Opinber stuðningur til foreldra eftir skilnað fylgir alltaf lögheimili barns, sem getur einungis verið hjá öðru foreldrinu, eins og barnalögin kveða á um. Má þar nefna barnabætur. Þær rata eingöngu til þess foreldris sem er með lögheimili barns þrátt fyrir sameiginlega forsjá og þrátt fyrir að barn hafi jafna búsetu hjá báðum foreldrum.

Meðlagið fylgir yfirleitt lögheimili barns. Það gildir einu hvort barnið hefur jafna búsetu hjá foreldrum sínum, eða hvort þeir skipta kostnaði vegna barnsins.

Það sama má segja um húsaleigubætur, þær fylgja lögheimili barns við útreikning, þar sem hallar verulega á það foreldri, sem barnið hefur EKKI lögheimili hjá. Þessi ójöfnuður bitnar á börnunum.

Það foreldri, sem fær lítinn opinberan stuðning og hefur mikil útgjöld (svo sem háan húsnæðiskostnað) þarf að afla töluverðra tekna, til að geta boðið barni sínu sómasamlegt heimili og sinnt grunnþörfum þess.

Eftir lögfestinguna um sameiginlega forsjá árið 2006, átti sér stað mikil og jákvæð breyting, með aukinni þátttöku fráskilinna feðra við umönnun og uppeldi barna sinna. Þróunin hefur verið hröð sl. ár. Lög um húsaleigubætur og barnabætur hafa ekki fylgt í kjölfarið, en eins og sjá má, er þarna á ferðinni mismunun á greiðslum til foreldra barna eftir samvistarslit. Þetta þarf að leiðrétta þar sem það brýtur í bága við barnalögin sem kveða skýrt á um að alltaf skuli hafa hagsmuni barna að leiðarljósi við skilnað foreldra.




Skoðun

Sjá meira


×