Skoðun

Svartur, hvítur eða grár?

Steinar B. Aðalbjörnsson skrifar
Það er ávallt gaman þegar fólk er ekki sammála. Líf okkar væri hreinlega innantómt ef allir væru alltaf sammála um alla hluti. Mikilvægt er þó að rýna rétt í fræðin þegar kemur að vísindunum og þegar ætlunin er að ráðleggja fólki með heilsu og heilbrigðan lífsstíl.

Nú nýverið kom pistill á bloggsíðu læknanema. Bloggið að þessu sinni var um stétt næringarfræðinga. Reyndar gaf pistlahöfundur það út seinna að greinin fjallaði um næringarfræðinga menntaða í Bandaríkjunum en höfundur gat þess ekki þegar pistillinn fór í umferð á Íslandi. Undirritaður er með öllu menntaður í Bandaríkjunum (e. RD; Registered Dietitian) og því vakti þessi bloggfærsla sérstakan áhuga.

Það er alltaf gott þegar fólk sér mál með mismunandi hætti. Reyndar var ánægja það fyrsta sem kom upp í huga undirritaðs við lestur pistilsins því þarna voru skrif um næringarfræðina, reyndar gagnrýni á hana, en slíkt er vísbending um að fræðin hafi verið í mikilli umfjöllun. Yfirleitt er það nú þannig að það sem ratar ekki í fjölmiðla þykir fáum þarft að gagnrýna og sterkasta vísbendingin um áhuga almennings er þegar fólk hefur skoðun á málefninu. Þetta voru því mjög jákvæð skref.

Mikilvægt er að taka það fram að næringarfræðin er ung grein. Margt er ennþá ólært um fræðin, bæði hvaða eiginleika matvæli hafa, enda fjöldi nýrra matvæla að koma á markað á hverjum degi, sem og hvaða áhrif þessi matvæli hafa á líkamann þegar þeirra er neytt. Næringarfræðin byggir á læknisfræðinni og er hún t.a.m. kennd á Heilbrigðisvísindasviði við Háskóla Íslands, sama sviði og læknisfræðin er kennd sem bloggarinn leggur einmitt stund á. Læknanemar taka kúrsa í næringarfræðum en alltof fáa að margra mati þar sem hluti læknisfræðinnar hlýtur að þurfa að vera almenn þekking á áhrifum matvæla á líkama mannsins.

En hvað er það sem kemur fram á bloggi læknanemans? Þar kemur fram hörð og óvægin gagnrýni á næringarstéttina sem slíka. Gert er lítið úr ráðleggingum stórra samtaka og gefið í skyn að flestar ráðleggingar dragi taum hagsmunahópa. Flestir vita að fáir hlutir eða málefni eru svört eða hvít. Alltaf eru einhverjir hagsmunaárekstrar mögulegir þegar málefni sem skipta máli eru annars vegar. Mjög alvarlegt er að gefa til kynna að ráðleggingar er snúa að næringarfræði hafi ekki breyst í tugi ára einungis vegna hagsmuna einhverra sérhópa eða að ráðleggingar hafi ekki breyst vegna þess að stétt vísindamenntaðs fólks sé samansett af þrjóskum, hrokafullum einstaklingum, „sérfræðingum", sem lítið viti um nútímann.

Mikilvægt er að muna að vísindin þurfa að vera beinagrind ráðlegginga um næringu sem og um allar ráðleggingar sem snúa að heilsu okkar sem þjóðar. Um þetta var t.d. skrifað í bloggi ekki alls fyrir löngu (https://heilbrigdurlifsstill.blog.is/blog/heilbrigdurlifsstill/entry/1221354/). Við getum ekki stokkið á hvað sem er og ráðlagt almenning á þann veg bara af því að það hentaði einhverjum örfáum í þröngum hópi. Einnig er mikilvægt að oftúlka ekki niðurstöður rannsókna, jafnvel þó þær komi frá einstaklingum eða hópum innan vísindasamfélagsins sem mikið mark er takandi á. Niðurstöður einnar rannsóknar, tveggja, 10 eða 20 rannsókna þarf alltaf að skoða með gagnrýnum augum. Ef við gerum það ekki, heldur stökkvum af stað og blásum út niðurstöður fárra rannsókna sem e.t.v. á eftir að endurtaka og endurtaka aftur, þá lendum við í vandræðum með ráðleggingar okkar.

Ef við hefðum í gegnum tíðina farið af stað með óábyrgum hætti þá hefðum við gefið út ráðleggingar um að mikið magn af E-vítamíni lengdi líf okkar (og þurft að bakka með það), gefið út ráðleggingar um að karnitín (e. carnitine) gerði okkur grönn (og þurft að bakka með það) og gefið út ráðleggingar um að mjólkurdrykkja stuðlaði að því að við grenntumst (og þurft að bakka með það) svo ég nefni nokkur atriði sem á sínum tíma komu sterkar vísbendingar fram um að gætu verið sönn.

Ráðleggingar til almennings eru snúnar. Mun auðveldara er að leiðbeina einstaklingum því þá þekkir maður betur aðstæður þeirra sem fá leiðbeiningarnar. Til dæmis á undirritaður auðvelt með að segja við hlaupara sem þjást af krömpum að það saki ekki að taka aukalega 200 mg af magnesíum á dag. Slíkar ráðleggingar væri glapræði að gefa almenningi þó svo að vísbendingar séu um að viðbót af magnesíum geti hjálpað við ákveðna afmarkað þætti. Vísbendingar um viðbótar magnesíum og fækkun krampatilfella eru of veikar til þess að rjúka með þær til almennings. Annað dæmi má taka um glúkósamín (e. glucosamine) en vísbendingar eru um að það hjálpi við uppbyggingu liðbrjósks en þær vísbendingar eru of veikar til að fara með ráðleggingar um þetta atriði til almennings.

En þarna er einmitt kjarni þessa skrifa minna. Við verðum að gera mikinn greinarmun á ráðleggingum til almennings og til einstaklinga. Ráðleggingar til einstaklinga geta verið nákvæmar og jafnvel er hægt að setja fram atriði sem henta einum einstaklingi en ekki þeim næsta. Nákvæmar ráðleggingar er sjaldnast hægt að veita almenningi.

Við verðum að byggja ráðleggingar til almennings á niðurstöðum fleiri en bara nokkurra rannsókna. Oftar en ekki er litið til niðurstaðna samantektarannsókna (s.k. meta analísur) þegar kemur að því að byggja ráðleggingar á niðurstöðum rannsókna. Meta analísur taka saman niðurstöður margra rannsókna, tuga og jafnvel hundraða, og þannig má t.d. einangra út þætti sem gætu haft áhrif til óþurftar á niðurstöður stakra rannsókna.

Margt er að gerast í næringarfræðunum og er undirritaður m.a. heillaður af fræðunum þess vegna. Næringarfræðin er ung grein eins og áður sagði og mikilvægt er að hlaupa ekki upp til handa og fóta fyrr en æskilegt er. Það er margt sem hægt er að taka undir með þeim sem gagnrýnt hafa næringarfræðina enda er ekkert svo gott að það megi ekki bæta. Til að mynda eru vísbendingar um að mettuð fita sé ekki eins stór sökudólgur eins og áður hefur verð haldið fram þegar kemur að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma en við verðum að hinkra með að varpa þeim upplýsingum til almennings enda er fita, mettuð eða ómettuð, eftir sem áður stór þáttur í því af hverju fólk fitnar – um það er ekki deilt enda er fitan orkuríkust allra orkuefnanna og fyrir flesta erfiðast að standast freistingar þegar kemur að fituríkum matvælum. Ráðleggingar um aukningu í neyslu á fituríkum afurðum væru því algerlega ábyrgðarlausar á þessari stundu.

Ég bjó ein átta ár í Bandaríkjunum þar sem ég bæði lagði stund á næringarfræði og starfaði um hríð á sjúkrastofnunum þar í landi. Það sem læknaneminn vill halda fram um nálgun einstaklinga innan næringarfræðistéttarinnar hlýtur því að vera byggt á misskilningi eða vanþekkingu því þann tíma sem ég bjó þar og starfaði var upplifun mín ekki svona svart/hvít. Auðvitað eru svartir sauðir innan allra stétta, jafnt innan næringarfræðinnar sem og læknisfræðinnar.

Algert lykil atriði í því þegar niðurstöður rannsókna eru lesnar er að skoðaðar séu niðurstöður sem taka allan skalann, bæði hluti sem maður er sammála og sem maður er ósammála. Ef niðurstöður rannsókna sem henta vissu sjónarhorni eru eingöngu teknar og skoðaðar verður niðurstaðan einstrengingsleg og röng (e. Cherry-picking/fallacy). Því miður virðist það hafa orðin raunin í tíðnefndum pistli læknanemans.




Skoðun

Sjá meira


×