Innlent

Ákærðir fyrir flókin og stórfelld fjársvik

Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, sagðist sumarið 2009 ætla að leita leiða til að endurheimta féð sem mennirnir sviku út. Fréttablaðið/gva
Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, sagðist sumarið 2009 ætla að leita leiða til að endurheimta féð sem mennirnir sviku út. Fréttablaðið/gva
Embætti sérstaks saksóknara hefur gefið út ákæru á hendur fjórum ungum mönnum fyrir stórfelld og flókin fjársvik og fjárdrátt sem í heild nema tugum milljóna króna. Lögregla hefur rannsakað málið frá því um sumarið 2009, eða í rúmlega tvö og hálft ár.

Mennirnir eru fæddir á árunum 1986 til 1990. Tveir þeirra voru handteknir 22. júlí 2009 og hinir tveir nokkrum dögum seinna við komuna frá Spáni. Þeir sátu allir í gæsluvarðhaldi um skeið. Málið var upphaflega rannsakað af efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra, en færðist til sérstaks saksóknara við sameiningu embættanna.

Svikin sem þeir hafa verið ákærðir fyrir voru flókin og kröfðust margþætts undirbúnings.

Þeir byrjuðu á því að taka yfir stjórn tveggja eignarhaldsfélaga með fölsuðum tilkynningum til Fyrirtækjaskrár.

Með tilkynningunum skipuðu þeir sjálfa sig í stjórnir félaganna og gerðu sig að prókúruhöfum án vitundar eigendanna. Til þess þurftu þeir að falsa undirskriftir raunverulegra forsvarsmanna félaganna. Þeir drógu sér síðan fé af reikningum félaganna tveggja.

Þá eru þeir ákærðir fyrir að hafa falsað kaupsamninga að tveimur íbúðum í eigu félaganna í miðbæ Reykjavíkur. Á samningana skrifuðu þeir nöfn einstaklinga sem komu þeim, húsnæðinu eða félögunum ekkert við, og síðan slógu þeir lán fyrir kaupunum hjá Íbúðalánasjóði í nafni fólksins.

Lánin tvö námu samtals ríflega fjörutíu milljónum króna, sem mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa stungið undan. Misferlið sem mennirnir sæta ákæru fyrir nemur samkvæmt heimildum blaðsins í heild um fimmtíu milljónum króna.

Ákæran hefur ekki verið birt sakborningunum og Fréttablaðið hefur hana ekki undir höndum. Hún verður þingfest í næstu viku. Samkvæmt heimildum blaðsins eru tveir mannanna ákærðir fyrir stærri þátt í brotunum en hinir.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×