Erlent

Segja Mubarak vera fórnarlamb

Fyrrverandi forsætisráðherra Egyptalands á nú dauðadóm yfir höfði sér.
Fyrrverandi forsætisráðherra Egyptalands á nú dauðadóm yfir höfði sér. nordicphotos/AFP
„Mubarak er hvorki harðstjóri né blóðþyrstur maður,“ sagði Farid el-Deeb, verjandi Hosni Mubarak í réttarhöldum, þar sem ákæruvaldið fer fram á dauðadóm.

Verjendur Mubaraks hófu málflutning sinn í gær, en dómari hefur úthlutað þeim fimm dögum til að skýra málstað fyrrverandi forseta landsins. Hann hrökklaðist frá völdum snemma á síðasta ári í kjölfar fjölmennra mótmæla.

„Þessi maður sem stendur fyrir framan ykkur er 83 ára, máttfarinn af veikindum eftir að hafa helgað allt líf sitt þjónustu í þágu þjóðarinnar. Hann hefur verið hart leikinn af illu umtali,“ sagði el-Deeb, sem einnig er verjandi tveggja sona Mubaraks, sem heita Alaa og Gamal.

Mubarak er sakaður um að hafa átt þátt í því að hundruð mótmælenda létu lífið í átökum við öryggissveitir landsins síðustu daga og vikur áður en Mubarak hrökklaðist frá völdum.

Stjórnvöld halda því fram að flestir hinna látnu hafi tekið þátt í árásum á lögreglustöðvar í því skyni að frelsa fanga eða útvega sér vopn. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×