Erlent

Öflugir háloftavindar valda flugfélögum vandræðum

Gífurlega öflugir háloftavindar yfir norðanverðu Atlantshafinu hafa valdið mörgum flugfélögum sem fljúga milli Evrópu og Bandaríkjanna miklum vandræðum.

Vindar þessir blása frá vestri til austurs í um 10 kílómetra hæð og eru sérlega öflugir um þessar mundir vegna veðurskilyrða, það er kulda við Grænland en hlýinda í Evrópu. Vindhraðinn í þeim getur náð allt að 400 kílómetrum á klukkustund.

Sökum þessa er flugtíminn frá Evrópu til Bandaríkjanna orðinn allt að 9 klukkustundir. Því hafa minni farþegaþotur oft þurft að millilenda á leiðinni til eldsneytistöku, annaðhvort á Grænlandi eða í Kanada.

Hina leiðina er svo mikill meðvindur þannig að sá flugtími hefur dottið niður í rúmar 6 klukkustundir. Það þýðir að flughraðinn á þeirri leið er orðinn yfir 1.000 kílómetrar á klukkustund. Í sumum tilvika hafa þoturnar flogið á nærri því hljóðhraða eða 1.200 kílómetra á klukkustund.

Flugfélögin hafa brugðist við þessu með því að fljúga norðar til að forðast þessa vinda og veldur þetta því aukinni flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×