Lífið

Hæ Gosi heldur áfram

Baldvin Z segir gamanþáttaröðina Hæ Gosa vera greinlega kærkomna breytingu fyrir landann á þessum tímum en hér handsala hann og Hilmar Björnsson, dagskrástjóri Skjás Eins, samning um þriðju seríuna.
Baldvin Z segir gamanþáttaröðina Hæ Gosa vera greinlega kærkomna breytingu fyrir landann á þessum tímum en hér handsala hann og Hilmar Björnsson, dagskrástjóri Skjás Eins, samning um þriðju seríuna.
„Við erum rétt að byrja að skrifa og komin með ákveðnar hugmyndir um hvað þriðja serían á að fjalla," segir framleiðandinn Baldvin Z en hann og samstarfsfólk hans hjá Z Films skrifaði á dögunum undir samninga við Skjá Einn um þriðju þáttaröðina af gamanþáttunum Hæ Gosi.

Þættirnir um bræðurna Víði og Börk, leikna af Kjartani og Árna Pétri Guðjónssonum, hafa átt góðu gengi að fagna en þeim leikstýrir Arnór Pálmi Arnarsson, sem einnig skrifar handritið ásamt Baldvini Z, Katrínu Björgvinsdóttur og Önnu Svövu Knútsdóttur sem nýverið bættist í hópinn. „Það er mikill liðsstyrkur að fá Önnu Svövu með okkur en við stefnum á að halda í sömu leikarana og sögusviðið verður Akureyri eins og í fyrri seríum," segir Baldvin en ekki margir íslenskir sjónvarpsþættir halda út í þrjár seríur og ber þá helst að nefna Vaktar-seríurnar sem eru þrjár talsins. Um 60 % áskrifenda Skjás Eins horfðu á seríu tvö í haust sem einnig gekk vel á VOD-leigunni og í DVD-sölu.

„Þetta hefur gengið framar vonum en ég held að þættirnir séu kærkomnir í allri vitleysunni sem á sér stað í samfélaginu. Þetta er einlæg fjölskyldu saga og ekki bara innantómt grín. Við erum rosalega góður hópur sem stendur að þessu og höfum gaman."

Áætlað er að fara í tökur í haust en Baldvin segir að þau ætli að gefa sér góðan tíma í þessa seríu. „Við höfum alltaf verið að vinna þetta á stuttum tíma og ákváðum núna að gefa okkur góðan tíma og gera þetta vel. Þættirnir fara því í sýningu í byrjun árs 2013." -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.