Erlent

Danskur prestur neitaði að jarða lesbíu

Prestur í Álaborg í Danmörku neitaði að jarða konu sem lést dögunum á þeim grundvelli að konan var samkynhneigð.

Konan var um áttrætt og hafði verið í sambandi við aðra konu í þrjátíu ár, lengst af í staðfestri sambúð. Málið hefur vakið mikil viðbrögð í hinu frjálslynda Danaveldi og verður fjallað um það í fréttaskýringaþætti í danska ríkisútvarpinu í kvöld. Rætt verður við dóttur konunnar sem segist varla hafa trúað því þegar presturinn útskýrði mál sitt fyrir framan hana og sambýliskonu hinnar látnu.

Presturinn segist nú sjá eftir öllu og hefur beðist afsökunar, en það gerði hann þó ekki fyrr en eftir að dóttirinn hafði kvartað við yfirboðara hans. Hann segist hafa tekið ákvörðunina umhugsunarlaust á grundvelli þess að hann sé mótfallinn því að samkynhneigð pör fái að ganga í hjónaband. Því fannst honum, að eigin sögn að hann gæti heldur ekki grafið gömlu konuna. Hann segist síðar hafa áttað sig á rökvillunni sem í þessu felist. Áskrifendur að danska ríkissjónvarpinu á Fjölvarpi stöðvar 2 geta horft á þáttinn í kvöld klukkan fimm sídegis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×