Skoðun

Norðurslóðamiðstöð á Akureyri

Kristján Möller skrifar
Akureyri er þegar orðin segull fyrir norðurslóðavísindi. Og við vinnum markvisst að því á mörgum vígstöðvum að höfuðstaður Norðurlands og nærsvæði verði að alþjóðlegri norðurslóðamiðstöð.

Því er haldið fram að þjónusta við rannsóknarskip og aðra umferð vegna umsvifa á norðurslóðum hafi dregið um einn og hálfan milljarð króna inn í veltuna á Eyjafjarðarsvæðinu á síðasta ári. Það sem þangað dregur eru afburða iðnaðarmenn, góð höfn, háskóli, fyrsta flokks sjúkrahús og heilbrigðisþjónusta og alþjóðaflugvöllur.

Rúmt ár er nú liðið frá því að Alþingi samþykkti einróma stefnu í málefnum norðurslóða fyrir skelegga forgöngu utanríkisráðherra. Markmiðið er að Íslendingar framleiði mikil verðmæti sem rekja má til norðurslóða, með vinnslu á olíu og gasi, með þjónustu við starfsemi annarra þjóða á þessu svæði og með öflugu framlagi til vísinda, rannsókna, umhverfisverndar og björgunarstarfa.

Væntanlega munu nýjar siglingaleiðir og boranir eftir olíu við Austur-Grænland, við Jan Mayen og á Drekasvæðinu skapa stórkostleg tækifæri á nokkrum stöðum á Norður- og Austurlandi fyrr en varir. Þar er þó að mörgu að hyggja og vanda þarf alla stefnumótun og hvert skref.

Akureyri er orðin miðstöð Íslendinga í norðurslóðasamstarfi. Viðurkenning á þeirri sérstöðu var undirstrikuð fyrr í mánuðinum þegar þingmannanefnd aðildarlanda norðurskautsráðsins hélt glæsilegan ársfund sinn á Akureyri þar sem mikill fjöldi verkefna var settur á dagskrá. Háskólinn á Akureyri eflist stöðugt á þessu sviði og stofnunum sem tengjast norðurslóðum fjölgar í Borgum, nýsköpunar- og rannsóknarhúsi háskólans. Mikilvægt frumkvæði Háskólans felst m.a. í því að hann býður upp á framhaldsnám í heimskautarétti sem er einstætt í heiminum.

Utanríkisráðherra hefur sagt opinberlega að á næstu árum muni fleiri verkefni sem tengjast norðurskautsráðinu verða fest á Akureyri. Eftir því sem þessari starfsemi vex fiskur um hrygg verkar orðspor hennar sem segull á fleiri og fjölþættari verkefni og skapar ný störf. Frumkvöðlarnir á Akureyri hafa rutt brautina.

Með norðurslóðastefnuna að bakhjarli verður stuðlað að því með ráðum og dáð að á Akureyri þróist öflug alþjóðleg norðurslóðamiðstöð. Það er sannfæring mín að þjónusta við norðurslóðir verði ein af helstu atvinnugreinum á Norðausturlandi þegar fram líða stundir.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×