Skoðun

Hvað er Sahel?

Stefán Ingi Stefánsson skrifar
Daginn sem Snæfríður Emilía komst til læknis var hún aðframkomin. Bústnar kinnarnar voru orðnar innfallnar, hendurnar beinaberar. Foreldrarnir þekktu vart lengur tveggja ára gömlu stúlkuna sína. Hvað yrði um barnið þeirra?

En kraftaverkin gerast enn. Fjórum vikum eftir að fislétt stúlka var lögð í hvítmálað rúm hafði hún þyngst vel og var farin að brosa. Tveimur mánuðum síðar var hún orðin eins og hún átti að sér að vera. Foreldrarnir önduðu léttar. Síðan litu þeir eitt andartak ringlaðir hvor á annan. Ef dóttir þeirra hefði ekki fengið meðhöndlun hefði hún veslast upp og dáið.

Það skal nú upplýst að Snæfríður Emilía heitir í raun og sanni Fatíma. Hún á ekki heima í Grafarvogi eða Grundarfirði heldur í Tsjad. Slæmu fréttirnar eru að þessar vikur eru mörg börn í Tsjad í sömu stöðu og hún var – bráðavannærð. Góðu fréttirnar eru að það er mögulegt að hjálpa þeim.

Vannærð börn þurfa alls ekki að láta lífið. Leiðir til að koma í veg fyrir það eru vel þekktar og UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, notar þær á hverjum einasta degi. Vítamínbætt og orkuríkt jarðhnetumauk, svokallað „plumpy-nut“, er meðal þess sem gerir kraftaverk fyrir börn eins og Fatímu. Þrír pakkar á dag, ásamt hreinu vatni, þurrmjólkurblöndum, saltupplausnum og lyfjum ef þess þarf – og meiri hluti barna nær sér á einungis fáeinum vikum.

Í dag hringir UNICEF viðvörunarbjöllum um allan heim og biður fólk að beina sjónum að einu fátækasta svæði veraldar: Sahel-svæðinu í Vestur- og Mið-Afríku. Þar hefur hættuástand skapast. Miklir þurrkar valda búsifjum í átta ríkjum, uppskera hefur brugðist, skepnur drepist og vatnsból þornað. Ung börn eru iðulega fyrri til að veikjast en fullorðnir – og fljótari að falla. UNICEF er á staðnum og metur það svo að ein milljón ungra barna eigi á hættu að látast af völdum alvarlegrar bráðavannæringar. En það þarf ekki að gerast.

Í dag hefst neyðarsöfnun UNICEF fyrir Sahel. Allt starf samtakanna – stærstu barnahjálparsamtaka heims – er rekið með frjálsum framlögum. Á síðunni www.unicef.is má leggja söfnun UNICEF á Íslandi lið. Framlag þitt skiptir máli. Saman getum við komið þúsundum barna til hjálpar á næstu vikum.




Skoðun

Sjá meira


×