Erlent

Segir vitnum bæði mútað og hótað

Charles Taylor
Charles Taylor
Charles Taylor, fyrrverandi forseti Líberíu, lýsir samúð sinni með fólki í Síerra Leóne, sem orðið hefur fyrir þjáningum af völdum glæpa.

Sjálfur segist hann hins vegar ekkert rangt hafa gert og biðst hvorki afsökunar né sýnir iðrun vegna þeirra stríðsglæpa, sem hann hefur verið dæmdur sekur um af stríðsglæpadómstól.

Auk þess sakar hann sækjendur í málinu um að hafa mútað og hótað vitnum til þess að bera vitni gegn honum.

Taylor var sakfelldur fyrir margvíslega stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, þar á meðal morð, nauðganir og notkun barna í hernaði í tengslum við borgarastríðið í Síerra Leóne, nágrannaríki Líberíu. Þeirri styrjöld lauk árið 2002 og hafði þá kostað meira en 50 þúsund manns lífið.

„Það sem ég gerði, var gert með sóma,“ sagði hann fyrir rétti á miðvikudag, þegar hann fékk tækifæri til að ávarpa dómstólinn í síðasta sinn áður en dómarar kveða upp úrskurð um refsingu í málinu. Það á að gera 30. þessa mánaðar.

„Ég var sannfærður um að án friðar í Síerra Leóne gæti Líbería ekki þróast áfram,“ sagði hann, og fór fram á að úrskurður dómstólsins yrði ekki byggður á hefndarhug heldur sáttahug. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×