Orkídea sem óx upp úr kolabing Sif Sigmarsdóttir skrifar 19. maí 2012 21:45 "Fyrir hvert lag sem við spilum útbúum við myndband sem varpað er á tjald á sviðinu. Slík sjónlistaverk eru jafnveigamikill hluti af mér og tónlistin mín,” segir Ferry. Bryan Ferry er rokkari sem sagt er að líklegri sé til að endurinnrétta hótelherbergi en rústa því. Eftir 40 ár í bransanum sækir hann Ísland heim fyrsta sinni í tilefni Listahátíðar í Reykjavík. Sif Sigmarsdóttir hitti hann fyrir í London þar sem hún komst að eigin raun að ástæðum þess að hann telst enn kvennagull og hvers vegna hann myndi sóma sér vel sem konungur Frakklands. Rifflaður flauelsjakki léti flesta sextíu og sex ára karlmenn líta út eins og stærðfræðiprófessor sem lifði í þeirri trú að tilgangur olnbogabóta væri að fela göt. En ekki Bryan Ferry. Á herðum tónlistarmannsins sem gjarnan er kallaður svalasti maður poppheimsins er rifflað flauelið nær því að vekja hugrenningatengsl við franska konunga miðalda sem tóku ástfóstri við efnið svo það hlaut heitið „le corde du roi" eða þráður kóngsins. Líkindin reynast ekki svo fjarri lagi. „Afsakið óreiðuna," segir Ferry er hann tekur á móti mér í bjartri setustofu fyrir ofan stúdíóið hans í Kensington-hverfi Lundúnaborgar. Veggina þekja hvítmálaðar hillur fullar af vandlega röðuðum bókum og listmunum. Ef þetta er óreiða, hvernig er umhorfs hjá honum þegar hann er nýbúinn að taka til? Ferry er alræmdur fyrir aðdáun sína á mannasiðum. Ég þori því ekki annað en að spyrja hvernig hann hafi það í dag en meðal Breta er sú spurningin almenn kveðja sem jafngildir halló og er yfirleitt einfaldlega svarað með „gott". En Ferry svarar af einlægni. „Ég er dálítið þreyttur." Ástæðan eru rússneskir nágrannar hans sem eru að gera upp hús sitt. Borhljóðin héldu fyrir honum vöku. Hann hallar sér lítið eitt aftur svo sléttist úr retró ullarbindi sem er vandlega skorðað undir kraga vel pressaðrar ljósblárrar skyrtu. Hárgreiðslan virðist í senn tilviljanakennd og úthugsuð. Hann er vel á sig kominn og situr teinréttur í sæti sínu. Ef þetta er Bryan Ferry ósofinn, hvernig lítur hann út úthvíldur? Hann andvarpar létt. „En ég hlakka til að fara til Íslands," segir hann og pírir augun kankvís. Ferry var að ljúka æfingum fyrir tónleika sem haldnir verða í Hörpu dagana 27. og 28. maí. Tónleikarnir eru hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík auk þess sem þeir marka upphaf alþjóðlegra Nelson Mandela daga á Íslandi sem haldnir eru til heiðurs Mandela og hugsjónum hans. "Þú ert bara námuverkamaður“Bryan Ferry er einn fárra tónlistarmanna frá áttunda áratug síðustu aldar sem kemst nálægt því að vera jafnheitur í dag og hann var fyrir 40 árum. Hann gerði garðinn frægan með hljómsveit sinni Roxy Music sem starfað hefur með hléum síðan 1971. Auk þess hefur hann átt glæstan sólóferil. Sem söngvari og lagahöfundur vakti hann snemma athygli fyrir fágað listarokk og flauelsmjúka rödd. Hann varð þó ekki síður þekktur fyrir einstakan stíl þegar kom að framkomu og klæðaburði. Honum var eitt sinn lýst sem svo svölum að það bæri að hengja hann upp á vegg í Tate-myndlistarsafninu. Vörumerki hans, smókingjakkar og kurteisleg framkoma, er eins langt frá einkennisbúningi rokkarans og hægt er að hafa það. En yfirbragðið er langt frá upprunanum. „Foreldrar mínir hefðu orðið himinlifandi," segir hann um fund sinn við drottninguna. „Þau voru auðmjúk. Þau hefðu hugsað: „Guð minn eini, sjálf drottningin!" Þau hefðu átt bágt með að trúa þessu. Foreldrar mínir bjuggu við erfiðar aðstæður. Þau höfðu hvorki rafmagn né rennandi vatn. Þetta var frumstætt." Ferry fæddist á Norður-Englandi inn í verkamannafjölskyldu. Faðir hans var námuverkamaður og ræktaði hesta sem notaðir voru við námugröftinn. Ferry ólst upp ásamt tveimur systrum sínum í litlu raðhúsi. Þau höfðu yfir að ráða útikamri og tinbaðkari sem hékk á einum veggnum. „En ég hef ekki yfir neinu að kvarta," segir Ferry. „Ég gekk í góðan grunnskóla þar sem kenndu mér framúrskarandi kennarar. Þeir vöktu hjá mér áhuga á sögu, bókmenntum og listum." Örlög Ferrys voru ráðin er hann fékk inngöngu í listadeild Háskólans í Newcastle. Samnemendur hans töldu hann góðan námsmann og var áhugi hans á sjónlistum talinn jaðra við þráhyggju. Á námsárunum hóf hann að fikta við tónlist. Hann útskrifaðist árið 1968 og fluttist til London þar sem hann kenndi leirkeragerð uns hann stofnaði Roxy Music sem naut skjótra vinsælda. Ferry hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa snúið baki við rótum sínum og sækja í elítuna. Hann gefur lítið fyrir gagnrýni um að hann hafi yfirgefið stétt sína. Þrátt fyrir framburð sem er ekki svo fjarri aðalsbornum hreim Englandsdrottningar og yfirstéttarlegan klæðaburð virðist auðmýkt foreldra hans vera honum í blóð borin. Hann er hógvær og á það til að gera góðlátlegt grín að sjálfum sér. „Ég virðist vera að verða viðtekinn," segir hann og hlær. „Ég sem hélt alltaf að ég væri neðanjarðartónlistarmaður." Hann á einhverju sinni að hafa lýst sjálfum sér sem orkídeu sem óx upp úr kolabing. Ein helsta eftirsjá hans er að hafa á háskólaárum sínum hreytt í föður sinn: „Hvað veist þú? Þú ert bara námuverkamaður." Fallegir hlutir úr fortíðinni„Mér hefur aldrei verið boðið til Íslands áður," segir Ferry og brosir svo hrífandi brosi að eitt og sér nægir það til að útskýra orðstír hans sem kvennagulls. „Ég hef starfað við tónlist lengi. Það er alltaf gaman að heimsækja nýja staði." Ferry segir þó að sér muni ekki gefast mikill tími til að skoða sig um á Íslandi. „Það sem ég geri venjulega þegar ég spila í borgum er að heimsækja einn stað. Ég fer á listasafn. List hefur alltaf átt hug minn og hjarta." Telur Ferry að áhugi hans á hinu sjónræna hafi haft áhrif á það hvernig hann hefur skapað ímynd sína? „Ég hef alltaf verið áhugasamur um hvernig hlutirnir líta út, um hinar mörgu mismunandi hliðar hönnunar. Hvort sem um er að ræða bifreiðar, húsgögn eða byggingar. Það er ekki ólíklegt að þessi áhugi endurspeglist í því hvernig ég kem fram og ekki síður í því hvernig ég set verk mín fram." Rætur Ferrys í sjónlistum leika stóra rullu þegar kemur að tónlistarferli hans. Ferry hefur sjálfur komið að hönnun allra plötuumslaga sinna sem og umslaga Roxy Music en þau prýða að jafnaði föngulegar fyrirsætur. Ófáar þeirra hafa verið dömur sem Ferry sló sér upp með. Má þar nefna Jerry Hall sem skreytir plötuna Siren, fimmtu plötu Roxy Music, en hún yfirgaf Ferry fyrir Mick Jagger. Á þeirri nýjustu má berja augum Kate Moss klædda litlu öðru en smarögðum. Vegna tækniframfara telur Ferry tónleika sína vera sjónrænt skemmtilegri í dag en áður fyrr. „Fyrir hvert lag sem við spilum útbúum við myndband sem varpað er á tjald á sviðinu. Slík sjónlistaverk eru jafnveigamikill hluti af mér og tónlistin mín." Og ef áður var þörf segir hann nú nauðsyn. Hann hrukkar ennið íbygginn. „Ég get ekki hlaupið jafnhratt fram og til baka á sviðinu og ég gerði hér áður fyrr." Eitt hljóð leiðir til annarsHönnunar- og listaáhuginn kom Ferry í bobba í viðtali við þýska dagblaðið Welt Am Sonntag árið 2007. Í áköfu spjalli við blaðamann sem spurði hann álits á byggingum Alberts Speer og kvikmyndum Leni Riefenstahl kvaðst hann sjá fegurð í íkonahefð nasista. Ummælin fóru sem eldur um sinu um heim allan. Ferry baðst afsökunar á ummælunum sem hann sagði einvörðungu hafa verið látin falla á forsendum listasögu. „Eins og allir aðrir heilvita einstaklingar álít ég nasistana og allt sem þeir stóðu fyrir illt og viðurstyggilegt." Þótt Ferry sé á sextugasta og sjöunda aldursári segist hann hvergi nærri nálægt því að setjast í helgan stein. Hann sé með tvær plötur í vinnslu. Fyrr á árinu kvæntist hann hinni 29 ára Amöndu Sheppard, fyrrum kærustu sonar síns. Fyrstu eiginkonu sinni, Lucy Helmore, módeli og alræmdri partípíu sem sat fyrir á plötualbúmi áttundu plötu Roxy Music, Avalon, var hann giftur í 21 ár. Eiga þau fjóra syni saman. Hjónabandinu lauk vegna framhjáhalds Helmore. Ferry segir það forvitnina sem reki hann áfram þegar kemur að tónlistinni. „Ég er forvitinn í eðli mínu. Ég veit ekki hvers vegna. Ég vil stöðugt vera að gera eitthvað nýtt." Hann segist hins vegar ekki vita hvað fylli hann andagift. Enn brýst hógværðin fram sem hlýlegur hlátur. „Innblásturinn kemur frá einhverjum öðrum stað. Ég er bara eins og stjórnandi. Eitt hljóð leiðir til annars og skyndilega er maður á einhvers konar ferðalagi." Dálæti á drottningunniElísabet Englandsdrottning er ekki sú eina sem sæmt hefur Ferry viðurkenningum nýverið. Auk þess að hreppa 12. sætið í vali GQ tímaritsins yfir best klæddu tónlistarmenn allra tíma hlotnaðist honum á dögunum æðsta heiðursnafnbót Frakka í bókmenntum og listum (Officier de l'ordre des arts et des lettres). Af lítillæti kemur Ferry sér undan því að svara til um hvaða þýðingu það hafi fyrir hann sem listamann að hljóta slíka vegsemd með því að víkja talinu að athöfninni í Buckingham Palace. „Það er ótrúlegt hve vel rekin höllin er. Það eru hermenn sem stýra athöfninni af mikilli leikni klæddir glæsilegum einkennisbúningum með rauðum rákum niður með buxnaskálmunum. Og framkoma þeirra og mannasiðir eru óaðfinnanleg. Þeir segja manni hvað maður á að gera. Athöfnin er voðalega indæl. Drottningin er með góða áru. Mér líkar það að við skulum vera með drottningu. Ég er „tradisjónalisti" í þeim skilningi." Ég ítreka spurninguna. Skiptir utanaðkomandi viðurkenning listamanninn Bryan Ferry máli? Hann horfir fjarrænn framhjá viðmælanda yfir antíkinnréttaða setustofuna. Glott færist yfir andlitið. „Ja, ef einhver segir við mann „mér líkar vel við þig" þá er það alltaf voðalega huggulegt. Þetta er dálítið svoleiðis. Maður hugsar: „ó, en huggulegt."" Augun staðnæmast á glugga sem snýr út í lítið sund sem leiðir að skarkala stórborgarinnar. „Fyrir mig persónulega var þetta dálítið hjartnæmt." Hann lítur á mig sposkur. „Og franska viðurkenningin var auðvitað bara súper kúl." Hann skellir upp úr. „Ég elska franska sögu; ógnarstjórnina; Versali. Nú hafa þeir sveiflast dálítið í hina áttina Frakkarnir." Dökkar augabrúnirnar rísa. „Kannski að þá vanti kóng." Hann gerir sér upp franskan hreim. „Verst að franskan mín sé ekki betri…" Mjúkur, flauelskenndur hlátur fyllir stofuna á ný. Leiti Frakkar sér kóngs virðist Bryan Ferry uppfylla flest þau skilyrði sem slíkur embættismaður þyrfti að hafa til að bera. Hann er valdsmannslegur en auðmjúkur. Seiðandi rödd hans hefur lag á að fanga fjöldann. Hann er yfirlýstur „tradisjónalisti" sem hefur hefðir í hávegum. Hann er svo sígildur að mönnum finnst til greina koma að hengja hann upp á vegg við hlið stórverka myndlistarsögunnar. Síðast en ekki síst tekur hann sig öðrum mönnum fremur vel út í „le corde du roi". Mest lesið Þingmaður úðaði eyrnameðali fyrir hunda í kokið á sér Innlent Sérsveit handtók vopnaðan mann Innlent Þorbjörg segir Úlfar hengja bakara fyrir smið Innlent Sósíalistar tortími mögulega sjálfum sér Innlent Kveður Glerártorg eftir sautján ár Innlent Umfangsmestu loftárásir frá upphafi stríðs Erlent Kviknaði í bíl á miðjum vegi Innlent Tóku á móti tveimur börnum á innan við klukkustund Innlent „Það eru alltaf einhverjar árásir í þessari blokk“ Innlent Úr Kvennaskólanum í píparann Innlent Fleiri fréttir Fundu lík fimm skíðamanna nærri Zermatt Umfangsmestu loftárásir frá upphafi stríðs Níu af tíu börnum tveggja lækna létust í árásum Ísraela Árásarkonan Þjóðverji á fertugsaldri Tólf særðir eftir hnífstunguárás í Hamborg Vilja breyta mannréttindasáttmála til að auðvelda sér að sparka innflytjendum úr landi Hvetja Íslendinga í Harvard til að hafa samband Ákærður fyrir að myrða sendiráðsstarfsfólk Ísraels Netanjahú segir Starmer, Macron og Carney draga taum Hamas Rússar notuðu Brasilíu sem njósnaraverksmiðju Íslendingur í Bandaríkjunum: „Þetta er mjög óþægileg staða“ Banna erlendum nemendum að sækja Harvard Eyðilegging í íbúðahverfi í San Diego eftir að lítil flugvél hrapaði Samþykktu billjóna dollara skattalækkanir og niðurskurð til velferðarmála Norðmaður fékk flutningaskip næstum inn í húsið á meðan hann svaf Tveir ísraelskir sendiráðsstarfmenn skotnir til bana í Washington Íbúar Austur-Grænlands mótmæltu einangrun og pólitísku afskiptaleysi Skutu mann í röngu húsi en brutu ekki af sér Nota lygapróf til að leita lekamanna og refsa þeim Notuðu þúsundir myndavéla til að vakta hergagnaflutninga Sat fyrir forseta Suður-Afríku með ásökunum um þjóðarmorð á hvítum Handtóku unga öfgahægrimenn sem hugðu á hryðjuverk Úkraínskur fyrrverandi embættismaður skotinn til bana í Madrid Norðmenn þurfa að taka tillit til loftslagsáhrifa olíuvinnslunar Dreifing hjálpargagna enn ekki hafin Senda farandfólk frá Asíu til Suður-Súdan Synir El Chapo sagðir hafa myndað afdrífaríkt bandalag Ætlar að eyða mun minna í pólitíkina Hætta viðræðum við Ísrael og boða aðgerðir Evrópuríki leggja refsiaðgerðir á „skuggaflota“ Rússa Sjá meira
Bryan Ferry er rokkari sem sagt er að líklegri sé til að endurinnrétta hótelherbergi en rústa því. Eftir 40 ár í bransanum sækir hann Ísland heim fyrsta sinni í tilefni Listahátíðar í Reykjavík. Sif Sigmarsdóttir hitti hann fyrir í London þar sem hún komst að eigin raun að ástæðum þess að hann telst enn kvennagull og hvers vegna hann myndi sóma sér vel sem konungur Frakklands. Rifflaður flauelsjakki léti flesta sextíu og sex ára karlmenn líta út eins og stærðfræðiprófessor sem lifði í þeirri trú að tilgangur olnbogabóta væri að fela göt. En ekki Bryan Ferry. Á herðum tónlistarmannsins sem gjarnan er kallaður svalasti maður poppheimsins er rifflað flauelið nær því að vekja hugrenningatengsl við franska konunga miðalda sem tóku ástfóstri við efnið svo það hlaut heitið „le corde du roi" eða þráður kóngsins. Líkindin reynast ekki svo fjarri lagi. „Afsakið óreiðuna," segir Ferry er hann tekur á móti mér í bjartri setustofu fyrir ofan stúdíóið hans í Kensington-hverfi Lundúnaborgar. Veggina þekja hvítmálaðar hillur fullar af vandlega röðuðum bókum og listmunum. Ef þetta er óreiða, hvernig er umhorfs hjá honum þegar hann er nýbúinn að taka til? Ferry er alræmdur fyrir aðdáun sína á mannasiðum. Ég þori því ekki annað en að spyrja hvernig hann hafi það í dag en meðal Breta er sú spurningin almenn kveðja sem jafngildir halló og er yfirleitt einfaldlega svarað með „gott". En Ferry svarar af einlægni. „Ég er dálítið þreyttur." Ástæðan eru rússneskir nágrannar hans sem eru að gera upp hús sitt. Borhljóðin héldu fyrir honum vöku. Hann hallar sér lítið eitt aftur svo sléttist úr retró ullarbindi sem er vandlega skorðað undir kraga vel pressaðrar ljósblárrar skyrtu. Hárgreiðslan virðist í senn tilviljanakennd og úthugsuð. Hann er vel á sig kominn og situr teinréttur í sæti sínu. Ef þetta er Bryan Ferry ósofinn, hvernig lítur hann út úthvíldur? Hann andvarpar létt. „En ég hlakka til að fara til Íslands," segir hann og pírir augun kankvís. Ferry var að ljúka æfingum fyrir tónleika sem haldnir verða í Hörpu dagana 27. og 28. maí. Tónleikarnir eru hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík auk þess sem þeir marka upphaf alþjóðlegra Nelson Mandela daga á Íslandi sem haldnir eru til heiðurs Mandela og hugsjónum hans. "Þú ert bara námuverkamaður“Bryan Ferry er einn fárra tónlistarmanna frá áttunda áratug síðustu aldar sem kemst nálægt því að vera jafnheitur í dag og hann var fyrir 40 árum. Hann gerði garðinn frægan með hljómsveit sinni Roxy Music sem starfað hefur með hléum síðan 1971. Auk þess hefur hann átt glæstan sólóferil. Sem söngvari og lagahöfundur vakti hann snemma athygli fyrir fágað listarokk og flauelsmjúka rödd. Hann varð þó ekki síður þekktur fyrir einstakan stíl þegar kom að framkomu og klæðaburði. Honum var eitt sinn lýst sem svo svölum að það bæri að hengja hann upp á vegg í Tate-myndlistarsafninu. Vörumerki hans, smókingjakkar og kurteisleg framkoma, er eins langt frá einkennisbúningi rokkarans og hægt er að hafa það. En yfirbragðið er langt frá upprunanum. „Foreldrar mínir hefðu orðið himinlifandi," segir hann um fund sinn við drottninguna. „Þau voru auðmjúk. Þau hefðu hugsað: „Guð minn eini, sjálf drottningin!" Þau hefðu átt bágt með að trúa þessu. Foreldrar mínir bjuggu við erfiðar aðstæður. Þau höfðu hvorki rafmagn né rennandi vatn. Þetta var frumstætt." Ferry fæddist á Norður-Englandi inn í verkamannafjölskyldu. Faðir hans var námuverkamaður og ræktaði hesta sem notaðir voru við námugröftinn. Ferry ólst upp ásamt tveimur systrum sínum í litlu raðhúsi. Þau höfðu yfir að ráða útikamri og tinbaðkari sem hékk á einum veggnum. „En ég hef ekki yfir neinu að kvarta," segir Ferry. „Ég gekk í góðan grunnskóla þar sem kenndu mér framúrskarandi kennarar. Þeir vöktu hjá mér áhuga á sögu, bókmenntum og listum." Örlög Ferrys voru ráðin er hann fékk inngöngu í listadeild Háskólans í Newcastle. Samnemendur hans töldu hann góðan námsmann og var áhugi hans á sjónlistum talinn jaðra við þráhyggju. Á námsárunum hóf hann að fikta við tónlist. Hann útskrifaðist árið 1968 og fluttist til London þar sem hann kenndi leirkeragerð uns hann stofnaði Roxy Music sem naut skjótra vinsælda. Ferry hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa snúið baki við rótum sínum og sækja í elítuna. Hann gefur lítið fyrir gagnrýni um að hann hafi yfirgefið stétt sína. Þrátt fyrir framburð sem er ekki svo fjarri aðalsbornum hreim Englandsdrottningar og yfirstéttarlegan klæðaburð virðist auðmýkt foreldra hans vera honum í blóð borin. Hann er hógvær og á það til að gera góðlátlegt grín að sjálfum sér. „Ég virðist vera að verða viðtekinn," segir hann og hlær. „Ég sem hélt alltaf að ég væri neðanjarðartónlistarmaður." Hann á einhverju sinni að hafa lýst sjálfum sér sem orkídeu sem óx upp úr kolabing. Ein helsta eftirsjá hans er að hafa á háskólaárum sínum hreytt í föður sinn: „Hvað veist þú? Þú ert bara námuverkamaður." Fallegir hlutir úr fortíðinni„Mér hefur aldrei verið boðið til Íslands áður," segir Ferry og brosir svo hrífandi brosi að eitt og sér nægir það til að útskýra orðstír hans sem kvennagulls. „Ég hef starfað við tónlist lengi. Það er alltaf gaman að heimsækja nýja staði." Ferry segir þó að sér muni ekki gefast mikill tími til að skoða sig um á Íslandi. „Það sem ég geri venjulega þegar ég spila í borgum er að heimsækja einn stað. Ég fer á listasafn. List hefur alltaf átt hug minn og hjarta." Telur Ferry að áhugi hans á hinu sjónræna hafi haft áhrif á það hvernig hann hefur skapað ímynd sína? „Ég hef alltaf verið áhugasamur um hvernig hlutirnir líta út, um hinar mörgu mismunandi hliðar hönnunar. Hvort sem um er að ræða bifreiðar, húsgögn eða byggingar. Það er ekki ólíklegt að þessi áhugi endurspeglist í því hvernig ég kem fram og ekki síður í því hvernig ég set verk mín fram." Rætur Ferrys í sjónlistum leika stóra rullu þegar kemur að tónlistarferli hans. Ferry hefur sjálfur komið að hönnun allra plötuumslaga sinna sem og umslaga Roxy Music en þau prýða að jafnaði föngulegar fyrirsætur. Ófáar þeirra hafa verið dömur sem Ferry sló sér upp með. Má þar nefna Jerry Hall sem skreytir plötuna Siren, fimmtu plötu Roxy Music, en hún yfirgaf Ferry fyrir Mick Jagger. Á þeirri nýjustu má berja augum Kate Moss klædda litlu öðru en smarögðum. Vegna tækniframfara telur Ferry tónleika sína vera sjónrænt skemmtilegri í dag en áður fyrr. „Fyrir hvert lag sem við spilum útbúum við myndband sem varpað er á tjald á sviðinu. Slík sjónlistaverk eru jafnveigamikill hluti af mér og tónlistin mín." Og ef áður var þörf segir hann nú nauðsyn. Hann hrukkar ennið íbygginn. „Ég get ekki hlaupið jafnhratt fram og til baka á sviðinu og ég gerði hér áður fyrr." Eitt hljóð leiðir til annarsHönnunar- og listaáhuginn kom Ferry í bobba í viðtali við þýska dagblaðið Welt Am Sonntag árið 2007. Í áköfu spjalli við blaðamann sem spurði hann álits á byggingum Alberts Speer og kvikmyndum Leni Riefenstahl kvaðst hann sjá fegurð í íkonahefð nasista. Ummælin fóru sem eldur um sinu um heim allan. Ferry baðst afsökunar á ummælunum sem hann sagði einvörðungu hafa verið látin falla á forsendum listasögu. „Eins og allir aðrir heilvita einstaklingar álít ég nasistana og allt sem þeir stóðu fyrir illt og viðurstyggilegt." Þótt Ferry sé á sextugasta og sjöunda aldursári segist hann hvergi nærri nálægt því að setjast í helgan stein. Hann sé með tvær plötur í vinnslu. Fyrr á árinu kvæntist hann hinni 29 ára Amöndu Sheppard, fyrrum kærustu sonar síns. Fyrstu eiginkonu sinni, Lucy Helmore, módeli og alræmdri partípíu sem sat fyrir á plötualbúmi áttundu plötu Roxy Music, Avalon, var hann giftur í 21 ár. Eiga þau fjóra syni saman. Hjónabandinu lauk vegna framhjáhalds Helmore. Ferry segir það forvitnina sem reki hann áfram þegar kemur að tónlistinni. „Ég er forvitinn í eðli mínu. Ég veit ekki hvers vegna. Ég vil stöðugt vera að gera eitthvað nýtt." Hann segist hins vegar ekki vita hvað fylli hann andagift. Enn brýst hógværðin fram sem hlýlegur hlátur. „Innblásturinn kemur frá einhverjum öðrum stað. Ég er bara eins og stjórnandi. Eitt hljóð leiðir til annars og skyndilega er maður á einhvers konar ferðalagi." Dálæti á drottningunniElísabet Englandsdrottning er ekki sú eina sem sæmt hefur Ferry viðurkenningum nýverið. Auk þess að hreppa 12. sætið í vali GQ tímaritsins yfir best klæddu tónlistarmenn allra tíma hlotnaðist honum á dögunum æðsta heiðursnafnbót Frakka í bókmenntum og listum (Officier de l'ordre des arts et des lettres). Af lítillæti kemur Ferry sér undan því að svara til um hvaða þýðingu það hafi fyrir hann sem listamann að hljóta slíka vegsemd með því að víkja talinu að athöfninni í Buckingham Palace. „Það er ótrúlegt hve vel rekin höllin er. Það eru hermenn sem stýra athöfninni af mikilli leikni klæddir glæsilegum einkennisbúningum með rauðum rákum niður með buxnaskálmunum. Og framkoma þeirra og mannasiðir eru óaðfinnanleg. Þeir segja manni hvað maður á að gera. Athöfnin er voðalega indæl. Drottningin er með góða áru. Mér líkar það að við skulum vera með drottningu. Ég er „tradisjónalisti" í þeim skilningi." Ég ítreka spurninguna. Skiptir utanaðkomandi viðurkenning listamanninn Bryan Ferry máli? Hann horfir fjarrænn framhjá viðmælanda yfir antíkinnréttaða setustofuna. Glott færist yfir andlitið. „Ja, ef einhver segir við mann „mér líkar vel við þig" þá er það alltaf voðalega huggulegt. Þetta er dálítið svoleiðis. Maður hugsar: „ó, en huggulegt."" Augun staðnæmast á glugga sem snýr út í lítið sund sem leiðir að skarkala stórborgarinnar. „Fyrir mig persónulega var þetta dálítið hjartnæmt." Hann lítur á mig sposkur. „Og franska viðurkenningin var auðvitað bara súper kúl." Hann skellir upp úr. „Ég elska franska sögu; ógnarstjórnina; Versali. Nú hafa þeir sveiflast dálítið í hina áttina Frakkarnir." Dökkar augabrúnirnar rísa. „Kannski að þá vanti kóng." Hann gerir sér upp franskan hreim. „Verst að franskan mín sé ekki betri…" Mjúkur, flauelskenndur hlátur fyllir stofuna á ný. Leiti Frakkar sér kóngs virðist Bryan Ferry uppfylla flest þau skilyrði sem slíkur embættismaður þyrfti að hafa til að bera. Hann er valdsmannslegur en auðmjúkur. Seiðandi rödd hans hefur lag á að fanga fjöldann. Hann er yfirlýstur „tradisjónalisti" sem hefur hefðir í hávegum. Hann er svo sígildur að mönnum finnst til greina koma að hengja hann upp á vegg við hlið stórverka myndlistarsögunnar. Síðast en ekki síst tekur hann sig öðrum mönnum fremur vel út í „le corde du roi".
Mest lesið Þingmaður úðaði eyrnameðali fyrir hunda í kokið á sér Innlent Sérsveit handtók vopnaðan mann Innlent Þorbjörg segir Úlfar hengja bakara fyrir smið Innlent Sósíalistar tortími mögulega sjálfum sér Innlent Kveður Glerártorg eftir sautján ár Innlent Umfangsmestu loftárásir frá upphafi stríðs Erlent Kviknaði í bíl á miðjum vegi Innlent Tóku á móti tveimur börnum á innan við klukkustund Innlent „Það eru alltaf einhverjar árásir í þessari blokk“ Innlent Úr Kvennaskólanum í píparann Innlent Fleiri fréttir Fundu lík fimm skíðamanna nærri Zermatt Umfangsmestu loftárásir frá upphafi stríðs Níu af tíu börnum tveggja lækna létust í árásum Ísraela Árásarkonan Þjóðverji á fertugsaldri Tólf særðir eftir hnífstunguárás í Hamborg Vilja breyta mannréttindasáttmála til að auðvelda sér að sparka innflytjendum úr landi Hvetja Íslendinga í Harvard til að hafa samband Ákærður fyrir að myrða sendiráðsstarfsfólk Ísraels Netanjahú segir Starmer, Macron og Carney draga taum Hamas Rússar notuðu Brasilíu sem njósnaraverksmiðju Íslendingur í Bandaríkjunum: „Þetta er mjög óþægileg staða“ Banna erlendum nemendum að sækja Harvard Eyðilegging í íbúðahverfi í San Diego eftir að lítil flugvél hrapaði Samþykktu billjóna dollara skattalækkanir og niðurskurð til velferðarmála Norðmaður fékk flutningaskip næstum inn í húsið á meðan hann svaf Tveir ísraelskir sendiráðsstarfmenn skotnir til bana í Washington Íbúar Austur-Grænlands mótmæltu einangrun og pólitísku afskiptaleysi Skutu mann í röngu húsi en brutu ekki af sér Nota lygapróf til að leita lekamanna og refsa þeim Notuðu þúsundir myndavéla til að vakta hergagnaflutninga Sat fyrir forseta Suður-Afríku með ásökunum um þjóðarmorð á hvítum Handtóku unga öfgahægrimenn sem hugðu á hryðjuverk Úkraínskur fyrrverandi embættismaður skotinn til bana í Madrid Norðmenn þurfa að taka tillit til loftslagsáhrifa olíuvinnslunar Dreifing hjálpargagna enn ekki hafin Senda farandfólk frá Asíu til Suður-Súdan Synir El Chapo sagðir hafa myndað afdrífaríkt bandalag Ætlar að eyða mun minna í pólitíkina Hætta viðræðum við Ísrael og boða aðgerðir Evrópuríki leggja refsiaðgerðir á „skuggaflota“ Rússa Sjá meira