Skoðun

Kastljós og tónlist

Það er eitthvað sem okkur finnst öllum leiðinlegt, að öll þáttagerð sé komin út úr Kastljósi. Þetta er gert út af sparnaði en ég held að þetta sé ákvörðun sem enginn er sáttur við að taka,“ segir XX, ritstjóri þáttarins. Samningur sem Ríkisútvarpið gerði við Félag þáttagerðarfólks, FÞF hefur sökum niðurskurðar orðið til þess að þáttagerðarfólk er hætt að vinna í Kastljósinu. Ástæðan er sú að þátturinn getur ekki lengur borgað þáttagerðarfólki fyrir að koma þar fram.

Þrátt fyrir að þáttagerðarfólkinu sjálfu sé flestu sama þótt það fái ekkert greitt, svo lengi sem það fær að vera í sjónvarpinu, getur Kastljósið ekki orðið við ósk þeirra vegna samningsins við FÞF. Hann kveður á um að hver þáttagerðarmaður fái um 22 þúsund krónur fyrir hverja framkomu. „Þetta er skrýtin staða að vera með óánægt þáttagerðarfólk sem vill koma fram. Við viljum fá þau en það er ekki hægt. Það eru allir að tapa á þessu ástandi,“ segir XX.

Glöggir lesendur Fréttablaðsins kannast hugsanlega við textann hér að ofan úr viðtali sem tekið var við ritstjóra Kastljóss og birt var þann 13. nóvember síðastliðinn. Textinn er nánast orðréttur nema orðinu „tónlistarmenn“ er skipt út fyrir „þáttagerðarfólk“. Ég hvet lesendur til að prófa fleiri starfsheiti á sama hátt og athuga hvað þeim finnst um útkomuna. Sem tónlistarmaður vil ég koma eftirfarandi á framfæri: Munurinn á flutningi lifandi tónlistar og auglýsinga er alveg skýr. Lifandi tónlistarflutningur, t.d. í sjónvarpi, er nákvæmlega það sem tónlistarmenn starfa við: Að flytja tónlist. Í sömu blaðagrein var hugtakið auglýsing notað yfir flutning lifandi tónlistar í sjónvarpi. Hér er um ranga hugtakanotkun að ræða. Ef tónlistarmenn auglýsa það sem þeir eru að gera fer það að sjálfsögðu fram í auglýsingatímum samkvæmt þeirri gjaldskrá sem þar gildir. Það má benda á að samningsbundin greiðsla Kastljóssins til tónlistarflytjenda gerir í mörgum tilfellum ekki meira en að rétt duga fyrir kostnaði við að koma upp í Efstaleiti með þau hljóðfæri og tækjabúnað sem til þarf. Og að lokum: Það væri óskandi að tónlistarmenn sjálfir hugleiddu vel hvers virði vinnuframlag þeirra er.




Skoðun

Sjá meira


×