Lífið

Matgæðingur leggur lokahönd á bók

Mynd sem Aldís Pálsdóttir, ljósmyndari Bókarinnar oKKar tók af Andreu þegar hún gekk með þriðju dóttir sína.
Mynd sem Aldís Pálsdóttir, ljósmyndari Bókarinnar oKKar tók af Andreu þegar hún gekk með þriðju dóttir sína.
Andrea Sóleyjar & Björgvinsdóttir, þriggja stúlkna móðir, meistaranemi í menningarstjórnun, flugfreyja, verkefnastýra hjá WOW air og höfundur af Bókinni oKKar.

BókiN oKKar er fallegt verk um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu sem Salka forlag gefur út í vor. Ásamt Andreu starfa að bókinni ljósmæðurnar Hafdís Rúnarsdóttir og Ragnheiður H. Reynisdóttir, Aldís Pálsdóttir ljósmyndari og Unnur Magna listakona.

Verkið er á lokastigi en þó er enn með gleði tekið við reynslusögum eða upplifunum um ferlið allt. Sérstaklega er óskað eftir hugleiðingum frá foreldrum um líðan og samlíf eftir fæðinguna á andreaeyland@gmail.com.

Lífið leitaði til Andreu eftir huggulegri helgaruppskrift;

"Uppskrift af súpunni hennar mömmu og brauðinu hans pabba er það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um mat. Mamma er snilldarkokkur og pabbi sérlega liðtækur í brauðbakstrinum. Dætur mínar og ég erum alveg sólgnar í þessa dásamlegu tvennu og ekki skemmir fyrir að geta notið hennar í sveitinni hjá þeim í Tungu."

Súpan góða fyrir 4-6

Einn Mexico, tveir papriku og tveir piparostar bræddir vel saman í örlitlu vatni.

500 gr gourmet hakk steikt á pönnu með tveim teningum af kjötkrafti og einum hreinum.

Tveim laukum og tveim rósrauðum paprikum svissað léttilega saman og blandað við hakkið.

Fullt af rjóma bætt við ásamt einni tsk af paprikukryddi og dós af Ora maisbaunum.

Öllu hrært varlega saman í stórum potti.

Brauðið ómissandi:

Fjórum teskeiðum af geri er blandað vel saman við 6 dl af volgu vatni. Einum dl af ólívuolíu og tveim teskeiðum af salti er bætt út og hveiti hrært saman við þar til deigið er hnoðhæft.

Skipt í fjóra hluta og látið hefa sig um stund, um 20-30 mínutur. Deigið flatt út, rifnum osti og hvítlauksolíu makað innan í. Herlegheitum rúllað saman og penslað með mjólk.

Virkilega gott að strá osti, basil og Saltverkssalti ofan á.

Lengjurnar látnar hefast hæð sína, um 5 mínutur og bakaðar í ofni þar til þær eru feitar og fínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.