Sven-Sören Christophersen, þýskur landsliðsmaður og leikmaður Füchse Berlin, verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla.
Christophersen leikur sem skytta og er einn mikilvægasti hlekkur í liði Füchse Berlin, sem Dagur Sigurðsson þjálfar.
Hann mun mögulega ekki spila meira fyrir jól þar sem hann meiddist á hné í sigri liðsins á Croatia Zagreb í Meistaradeild Evrópu um helgina.
„Hann er virkilega mikilvægur leikmaður í okkar liði og því er þetta eðlilega mjög slæmt," sagði Bob Hanning, framkvæmdarstjóri Füchse Berlin, við þýska fjölmiðla. „En við erum ekki háðir einum leikmanni."
Füchse Berlin mætir Magdeburg á morgun en um grannaslag er að ræða. Füchse Berlin er í fjórða sæti deildarinnar en Magdeburg því níunda.
