Innlent

Sjö ára fangelsi fyrir kynferðisbrot

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Karlmaður var dæmdur í sjö ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn tveimur aðilum.

Maðurinn braut ítrekað gegn stúlku á árunum 1998 - 2002, þegar stúlkan var á aldrinum 12-14 ára.

Hann var einnig fundinn sekur um að brjóta gegn dreng, en þau brot voru framin á árunum 1997-2010, og hófust þegar drengurinn var sjö ára. Dómurinn í málinu var fjölskipaður.

Maðurinn var eiginmaður móðursystur stúlkunnar en pilturinn var vinur sonar hans. Maðurinn hefur ætíð neitað sök.

Upphaf málsins má rekja til þess að þriðjudaginn 9. nóvember 2010 kom móðir piltsins á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur manninum vegna kynferðisbrota gagnvart syni sínum. Hún kvað son sinn hafa farið í meðferð í byrjun mánaðarins, en hann hefði misnotað áfengi og fíkniefni undanfarin ár. Hann hefði hringt í sig og sagst þurfa að tala við hana. Í samtali þeirra mæðginanna hefði komið fram hjá honum að ákærði hefði misnotað hann kynferðislega.

Nokkrum dögum síðar var pilturinn yfirheyrður af lögreglu og skýrði þar frá sögu sinni. Við yfirheyrslu yfir piltinum kom fram að hann taldi manninn einnig hafa misnotað stúlkuna. Stúlkan var þá yfirheyrð og skýrði frá sinni sögu. Þá voru fjölmörg vitni yfirheyrð áður en maðurinn var handtekinn og yfirheyrður, en hann neitaði sök.

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald 16. nóvember 2010 og sat í tíu daga á meðan málið var rannsakað.

Auk fangelsisdómsins var maðurinn dæmdur til að greiða stúlkunni 1,6 milljónir í bætur og piltinum þrjár milljónir í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×