Handbolti

Langþráður og frábær stórsigur hjá Sverre og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverre Jakobsson.
Sverre Jakobsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Sverre Jakobsson og félagar hans í Grosswallstadt voru búnir að tapa átta deildarleikjum í röð og einum bikarleik að auki þegar þeir fengu GWD Minden í heimsókn í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Grosswallstadt-liðið átti hinsvegar frábæran leik í kvöld og vann þrettán marka stórsigur, 35-22.

Vignir Svavarsson og félagar í GWD Minden áttu enga möguleika gegn grimmum Grosswallstadt-mönnum sem urðu hreinlega að vinna þennan leik. Grosswallstadt var með sjö marka forskot í hálfleik, 19-12, og bætti síðan við forystuna í seinni hálfleiknum.

Sverre Jakobsson spilaði að venju bara í vörninni en hann var rekinn einu sinni útaf í tvær mínútur. Michael Thiede var markahæstur hjá liðinu með 9 mörk.

Vignir Svavarsson skoraði 2 mörk fyrir Minden í kvöld en liðið var aðeins búið að tapa einu sinni í síðustu sex deildar- og bikarleikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×