Innlent

Launahækkun forstjórans stuðar lækna

Karen Kjartansdóttir skrifar
Formaður Læknafélags Íslands segir launahækkun forstjóra Landspítalans stuða marga innan stéttarinnar enda hafi mikill niðurskurður í heilbrigðiskerfinu hafi kostað marga starfið og valdið launalækkun og auknu álagi. Fyrir hækkun var forstjóri Landspítalans launahæstur ríkisforstjóra landsins.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að hann hafi ekki gengið gegn kjararáði við mjög umdeilda launahækkun hjá Birni Zoega forstjóra Landspítalans. Eins og kunnugt er hækkaði Guðbjartur laun forstjórans um 450 þúsund krónur í vikunni.

„Okkur þykir þetta óneitanlega skjóta skökku við þegar maður horfir á ástandið í heilbrigðistkerfinu og þann mikla niðurskurð sem verið hefur undanfarin ár sem meðal annars hafa falið í sér umtalsverðar launalækkanir til margra starfsmanna og margir hafa misst vinnuna þannig ég veit að þetta stuðar marga í minni stétt," segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.

Í yfirlýsingu frá stjórn Læknafélagsin í dag eru stjórnvöld hvött til að snú af braut niðurskurðar í heilbirgðiskerfinu svo endurnýja megi tæki á spítalanum og sporna við brottflutningu heilbrigðisstarfsmanna sem einnig geti fengið vinnu erlendis rétt eins og forstjórinn og draga úr álagi meðal þeirra.

Björn Zoëga var fyrir þessa hækkun hæstur á lista Frjálsrar verslunar yfir launahæstu embættismenn og forstjóra ríkisfyrirtækja með eina milljón og fimmhundruð og nítíuþúsund í laun á mánuði samkvæmt blaðinu.

450 þúsund króna launahækkunin sem hann fékk í liðinni viku hefur vakið hörð viðbrögð víða. Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður félags hjúkrunarfræðinga ritar grein í Fréttablaðið í dag undir yfirsögninni „Mér er misboðið".

Í greininni segir meðal annars að til að setja þessa launahækkun í samhengi við þær breytingar sem orðið hafa í þjónustu á LSH má benda á að í byrjun sumars var göngudeild fyrir kransæðasjúklinga lokað til að spara sem nam rúmlega einu stöðugildi hjúkrunarfræðings. Sú launahækkun sem ráðherra ákvarðaði forstjóra LSH nú, sé ekki fjarri þeirri fjárhæð sem sparaðist við lokun göngudeildarinnar.

Þá bendir hún á að svo mikil eftirspurn er eftir hjúkrunarfræðingum í Noregi að allir íslenskir hjúkrunarfræðingar gætu fengið starf þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×