Innlent

Margir gáfu frjáls framlög í Höfða

BBI skrifar
Móttökuhúsið Höfði var opið gestum og gangandi í sumar. 6300 manns notuðu tækifærið til að skoða þetta sögufræga hús. Reykjavíkurborg tók þá ákvörðun að rukka fólk ekki um aðgangseyri en setja heldur upp bauk í húsinu sem fólk gat gefið í að vild. Þegar húsinu var lokað fyrir gestaheimsóknum þann 1. september og baukurinn var opnaður kom í ljós að safnast höfðu 105.445 krónur.

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að gefa 30 þúsund krónur til Vildarbarna en nýta 75.445 kr. í viðhald hússins. Sumaropnun Höfða með þessu móti var gerð í tilraunaskyni. Vegna þess hve vel tókst til hefur verið ákveðið að gera það aftur að ári liðnu.

Húsið á sér merkilega sögu sem tengist samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Það var reist á Félagstúni fyrir franska konsúlinn, Jean Paul Brillouin, hannað í Austur-Noregi og flutt tilsniðið til Íslands og er svokallað kataloghús. Í byggingunni má sjá áhrif frá júgendstíl, klassísku nýbarrokki og norskri þjóðernisrómantík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×