Innlent

Breytingar á námslánakerfinu í vændum

Karen Kjartansdóttir skrifar
Fréttablaðið/GVA
Heildarendurskoðun á framfærslu námsmanna stendur yfir í menntamálaráðuneytinu sem gætu gert framhaldsskólanám lánshæft. Menntamálaráðherra stefnir á að leggja fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að nemendur geti fengið hluta námslána sinna felldan niður ljúki þeir námi á tilsettum tíma.

Að sögn menntamálaráðherra gætu breytingarnar haft í för með sér niðurfellingu á fjórðungi af höfuðstól námslána ef nemendur ljúka námi á tilsettum tíma.

„Þetta er auðvitað hvetjandi til þess að fólk ljúki námi sínu á réttum tíma," segir Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra. „Fyrirmyndirnar eru frá Norðurlöndum sem hafa byggt sín kerfi svona upp til að draga úr því að nemendur falli brott. Hugsunin er að þá sú að þetta eigi við lánshæft nám og við erum að vinna að því að koma þessum tillögum í frumvarpsform í samráði við hagsmunaaðila þessa dagana."

Hagkvæmt er að koma í veg fyrir að nemendur séu lengur í námi en þörf er á. Aðgerðir sem þessar kosta samt líka mikið og enn á eftir að greina kostnað við frumvarpið.

Höfum við efni á þessu? „Það er eitt af því sem verið að er að vinna að, það er að kostnaðargreina þetta en þetta er eitt af því sem er mjög þjóðhagslega hagkvæmt að mínu mati að fólk ljúki námi fyrr en ella."

Kvartað hefur verið yfir því að sumt nám sé orðið svo langt að ekki borgi sig að fara í það.

En stendur ekki til að stytta nám? „Þetta myndi líklega ýta undir það að fólk lyki námi fyrr en eitt af lykilatriðunum sem við viljum ná fram með þessu er að við viljum skoða framfærslukerfið í heild sinni, ekki bara það sem hefur verið lánshæft hingað til heldur líka í framhaldsskólanámi. Við höfum verið að vinna að verkefni í þeim efnum með velferðarráðuneytinu. Þannig við stefnum að því að vera komin með eitthvert heildstætt kerfi þegar við erum búin með þessa vinnu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×