Innlent

Atkvæðagreiðsla um stjórnarskrána hefst eftir tvo daga

BBI skrifar
Eiríkur Bergmann sat í stjórnlagaráði.
Eiríkur Bergmann sat í stjórnlagaráði.
Kjörseðillinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga var birtur á netinu í dag. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst næstkomandi laugardag, eða eftir tvo daga. Atkvæðagreiðslan sjálf fer fram 20. október.

Eiríkur Bergmann, stjórnlagaráðsmeðlimur, segir að nú standi upp á stjórnvöld að kynna frumvarpið rækilega fyrir þjóðinni og það þurfi að gera sem fyrst. „Það þarf í fyrsta lagið að dreifa frumvarpinu í heild sinni í hvert einasta hús á landinu. Svo þarf að setja upp einfalt kynningarefni þar sem helstu atriði eru dregin fram, bæði inn á vefinn og í fjölmiðla. Og loks þurfa íslenskir fjölmiðlar að rakna úr rotinu og fara að fjalla um þessi mál," segir Eiríkur.

Hann bendir á að málið þyki merkilegt á heimsvísu og 3-4 erlendir fréttamenn hringi í hann á hverjum degi til að fræðast um málið. Íslenskir fjölmiðlar þegi hins vegar þunnu hljóði.

Sýnishorn af kjörseðlinum.
Á kjörseðlinum, sem sést hér til hliðar, koma fram 6 spurningar í krossaformi, m.a. hvort ákvæði um þjóðkirkju eigi að vera í stjórnarskrá og hvort atkvæði kjósenda hafi jafnt vægi í kosningum.

Eiríkur hefur að undanförnu velt stjórnlagagerð mikið fyrir sér og bauð fréttamanni upp á handahófskennda fróðleiksmola af því sviði.

„Það eru tæpast til dæmi þess að stjórnlagaþing hafi komist að einróma niðurstöðu eins og gerðist hjá okkur," segir hann. Skiptar skoðanir hafi verið á þekktum stjórnlagaþingum í gegnum tíðina.

Eiríkur bendir einnig á að íslenska stjórnlagaráðið hafi fengið jafnlangan tíma til að semja frumvarp til stjórnlaga og þeir sem sömdu bandarísku stjórnarskrána, eða fjóra mánuði. „Og sögusagnir segja að glasaglaumur hafi verið mikill fyrstu tvo mánuðina hjá þeim," segir hann.

Loks bendir hann á að stjórnarskrár hafi gegnum tíðina yfirleitt verið skrifaðar í kjölfar einhvers konar krísu. „Það eru aðeins tvö tilvik þekkt um að stjórnarskrá hafi ekki verið skrifuð á ólgutímum," segir hann.

Hér má sjá allan kjörseðilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×