Enski boltinn

Darren Fletcher á víst starf hjá Manchester United

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fletcher skorar í leiknum gegn Benfica í nóvember.
Fletcher skorar í leiknum gegn Benfica í nóvember. Nordicphotos/Getty
Skoski miðjumaðurinn Darren Fletcher hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United á enn töluvert í land með að ná fullri heilsu ef marka má ummæli Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóra liðsins, á vef Guardian.

Fletcher spilaði síðast með United í Meistaradeildinni gegn Benfica í nóvember síðastliðnum og hefur ekki æft með liðinu síðan þá.

„Hann þarf augljóslega að takast á við mikla áskorun. Við erum þolinmóðir og bíðum eftir honum en það er ljóst að hann verður ekki klár þegar tímabilið fer í hönd," er haft eftir Ferguson.

Fletcher, sem spilaði sinn fyrsta aðalsliðsleik fyrir United, er orðinn 27 ára gamall og hefur glímt við sáraristilbólgu undanfarið ár. Greinilegt er á orðum Ferguson að óvíst er hvort Skotinn geti leikið knattspyrnu á nýjan leik.

„Þetta er auðvitað leiðindamál því hann er frábær atvinnumaður og yndisleg persóna. Ef ekkert verður úr knattspyrnuferlinum á hann víst starf innan félagsins," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×