Innlent

Ekki víst að hvítabjörninn verði felldur

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Skytturnar við þyrlu Landhelgisgæslunnar. Spurning hvort þeirra verður þörf í dag.
Skytturnar við þyrlu Landhelgisgæslunnar. Spurning hvort þeirra verður þörf í dag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hélt í morgun áfram leit sinni hvítabirninum sem menn telja sig hafa séð á Húnaflóa í gær. Skytta er um borð í vélinni en tekið verður mið af aðstæðum hvort dýrið verði fellt, finnist það á annað borð.

Það voru ítalskir ferðamenn sem töldu sig sjá til bjarnarins í gær. Lögregla hefur þó enn ekki náð tali af fólkinu.

„Við höfum ekki fundið þá. Það er talið að þeir séu á gráum jeppling, en við erum ekki búnir að finna þá," segir Kristján Þorbergsson yfirlögregluþjónn á Blönduósi.

Þyrla Gæslunnar fór til leitar í gær og hætti henni á tólfta tímanum í gærkvöldi. Leitin hófst að nýju klukkan tíu í morgun og verður farið allan Húnaflóann og meðfram ströndinni.

„Við bíðum bara átekta hvar eigi helst að bera niður. Við bíðum eftir fréttum frá þyrlunni og eins ef einhverjar tilkynningar berast frá fólki í landi."

Skytta er um borð í þyrlunni og segir Kristján það vera viðtekna venju í leit af þessu tagi. „Það er nú lítið gagn af því að vera að leita og þurfa að henda í hann grjóti ef hann er á stað þar sem hann veldur hættu, þannig að ég held að það sé nú bara regla."

Ekki er þó endilega víst að dýrið verði fellt, finnist það á annað borð. „Það fer allveg eftir aðstæðum hvar hann er þegar hann finnst. Ómögulegt er að segja til um það á þessu stigi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×