Skoðun

Stuðningsgrein: Forseti sem við berum virðingu fyrir

Hjalti Vigfússon skrifar
Nokkuð hefur verið rætt um hlutverk forsetans í aðdraganda forsetakosninganna næstu helgi. Ég hef oft velt þessari umræðu fyrir mér og jafnvel tekið þátt í henni. Ég skil samt ekki af hverju frambjóðendur og við landsmenn ræðum þetta í svo mikla þaula. Við þekkjum öll hlutverk forsetans nokkuð vel. Þrátt fyrir að sitjandi forseti hafi virkjað málsskotsréttin með eftirminnilegum hætti, vitum við vel að það er ekki hlutverk forsetans að taka í sífellu fram fyrir hendur Alþingis, enda hefur enginn forseti lýðveldissins hagað sér þannig.

Forsetinn á að vera andlit þjóðarinnar út á við, standa vörð um menningu okkar og gildi, gleðjast með okkur á góðum stundum og vera sameiningartákn í blíðu og stríðu. Forsetinn þarf því að vera einstaklingur sem þjóðin ber virðingu fyrir. Hann á að vera forseti allra landsmanna - ekki afmarkaðs hóps skoðanabræðra og -systra. Af þeim frambjóðendum sem gefa kost á sér til forseta finnst mér einn frambjóðandi bera af þegar ég máta þau við þessar kröfur: Þóra Arnórsdóttir.

Sumir meðframbjóðenda hennar hafa raunar aldrei komist í kallfæri við þær lágmarkskröfur sem við ættum að gera til þess sem gegnir embætti forseta Íslands. Sitjandi forseti hefði til að mynda átt að draga sig í hlé eftir að hafa kallað Þóru Arnórsdóttur „skrautdúkku". Ólafur Ragnar hefði aldrei nokkur tíma látið þessi orð falla um karl í sömu stöðu, með sömu reynslu og menntun og Þóra. Með niðrandi ummælum sínum gerði Ólafur Ragnar lítið úr þeim jafnréttisgildum sem eru okkur hve kærust. Hann hefur ekki einu sinni haft sómatilfinningu til að biðjast afsökunar á orðum sínum þrátt fyrir ótal tækifæri og ærna ástæðu. Ég get ekki borið virðingu fyrir forseta sem talar niður til kvenna og gerir lítið úr þeim gildum sem við eigum að standa vörð um í hvívetna.

Þóra Arnórsdóttir er sá frambjóðandi sem hefur í aðdraganda kosninganna, með málflutningi sínum og framkomu, sýnt að hún er forseti sem við getum virt, sameinast um og verið stolt af. Hún hefur háð heiðarlega kosningabaráttu og talað fyrir því að sem forseti muni hún standa vörð um þau gildi sem eru þjóðinni mikilvæg.

Þóra er talsmaður framtíðarinnar og hún er þegar orðin talsmaður lands og þjóðar í erlendum fjölmiðum og henni mun áfram fylgja gríðarlega jákvæð umfjöllun hvert sem hún fer. Þóra er ung, þrælmenntuð kona, hokin af starfsreynslu, hún kemur vel fyrir sig orði og hefur verið verðlaunuð af landsmönnum fyrir starf sitt sem fréttamaður einmitt vegna þessa. Hún er eldklár, talar sex tungumál og er menntuð í þróunarhagfræði og alþjóðasamskiptum. Þeim sem hafa haldið því fram að Þóra sé „umbúðirnar einar" er skylt að endurskoða afstöðu sína og líta í eigin barm með þetta í huga, enda krefst slík röksemdafærsla mjög brenglaðrar skilgreiningar á orðinu „umbúðir".

Þóra er talsmaður sátta í þjóðfélagi sem gengið hefur í gegnum erfiða tíma á síðustu árum. Hún kemur til með að ýta undir stöðugleika í þjóðfélaginu og sátt stríðandi fylkinga. Hún lætur ekki eigin hagsmuni hafa áhrif á ákvarðanir sínar heldur hefur hún hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Hún treystir þjóðinni til að taka ákvarðanir í mikilvægum málum og hefur nefnt aðildarsamning Íslands við ESB sem dæmi í þeim efnum. Hún hefur krafist þess að aðildarsamningurinn verði settur í þjóðaratkvæðagreiðslu og að niðurstaða hennar sé sú sem muni standa.

Þóra hefur á undanförnum vikum talað heiðarlega og skynsamlega. Ég ber virðingu fyrir henni og því sem hún stendur fyrir. Þóra treystir þjóðinni og þess vegna ætla ég að treysta Þóru.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×