Erlent

Stjórn Richard Nixon var mun verri en áður var talið

Blaðamennirnir sem urðu þess valdandi að Richard Nixon varð að segja af sér embætti sem forseti Bandaríkjanna telja í dag að stjórn Nixon hafi verið mun verri en þeir skrifuðu um á sínum tíma.

Þetta eru þeir Bob Woodward og Carl Bernstein. Saman skrifa þeir grein í Washington Post í tilefni af því að brátt eru 40 ár frá innbrotinu í höfuðstöðvar Demókrataflokksins í Watergate byggingunni í Washington sem varð upphafið að falli Nixon.

Margar áður óþekktar upplýsingar hafa komið fram í dagsljósið síðan fimm menn sem tengdust Nixon brutust inn í Watergate á þjóðhátíðardegi Íslendinga árið 1972.

Woodward og Bernstein segja nú að ólöglegar rannsóknir, innbrot, hleranir og pólitísk skemmdarverk hafi verið daglegt brauð á dagskrá Hvíta hússins allt frá því að Nixon tók þar við völdum árið 1969. Með þessum aðferðum hafi Nixon tekist að berja niður mótmælahreyfinguna gegn Víetnam stríðinu, fjölmiðla landsins, Demókrataflokkinn og að lokum dómskerfið.

Bernstein yfirgaf Washington Post árið 1976 en Woodward starfar þar enn og er hluti af ritstjórateymi blaðsins. Þeir ákváðu að sameina starfskrafta sína að nýju í tilefni af þessu afmæli innbrotsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×