Erlent

Veltan á hassmarkaðinum í Kristjaníu komin í 21 milljarð á ári

Hasssalan í Kristjaníu í Kaupmannahöfn er nú orðin svipuð að umfangi og hún var fyrir árið 2004 þegar þáverandi stjórnvöld létu til skarar skríða gegn fíkniefnasölum á staðnum og lokuðu Pusher Street.

Í dönskum fjölmiðlum í morgun er haft eftir Lau Thygesen yfirmanni þeirrar deildar Kaupmannahafnarlögreglunnar sem berst gegn skipulagðri glæpastarfsemi að veltan í hasssölunni í Kristjaníu sé nú komin upp í um milljarð danskra króna eða yfir 21 milljarð króna á ári.

Þetta er svipuð velta og var áður en Pusher Street var lokað árið 2004. Næstu árin þar á eftir var þeirri lokun svo fylgt eftir með fjölda aðgerða lögreglunnar sem lét reglulega til skarar skríða gegn hasssölunni. Lítið hefur hinsvegar farið fyrir slíkum aðgerðum á síðustu þremur árum.

Morten Bödskov dómsmálaráðherra Danmerkur segir að þessi staða sé óviðundandi og boðar aðgerðir gegn þeim sem standa að baki hasssölunnar. Talið er að glæpasamtökin Hells Angels stjórni að mestu fíkniefnamarkaðinum í Kristjaníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×