Erlent

Sendiherrar ekki lengur velkomnir í Sýrlandi

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. mynd/AP
Sendiherrar Bandaríkjanna og Bretlands eru ekki lengur velkomnir í Sýrlandi. Yfirvöld þar í landi tilkynntu í dag að diplómatarnir yrðu reknir á brott en fyrir rúmri viku var sendiherrum Sýrlands gert að yfirgefa sendiráð sín í nokkrum löndum í Evrópu og Asíu.

Þá tilkynntu Sameinuðu Þjóðirnar í dag að yfirvöld í Sýrlandi hefðu samþykkt að hleypa alþjóðlegum hjálparstofnunum inn í landið. Talið er að um milljón manns hafi orðið fyrir beinum áhrifum frá þeirri óöld sem geisað hefur í landinu síðustu mánuði.

Sameinuðu Þjóðirnar hafa ítrekað sóst eftir því að hjálparstarfsmenn fái inngöngu í landið en hingað til hafa ekki fengist vegabréfsáritanir fyrir þá.

Þá hafa Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og starfsbróðir hans í Kína, Hu Jintao, hvatt alþjóðasamfélagið til að halda áfram stuðningi við friðaráætlun Kofi Annans, erindreka Sameinuðu Þjóðanna og Arabandalagsins í Sýrlandi.

Þjóðarráð Sýrlands, helstu samtök stjórnarandstæðinga í landinu, lýstu því yfir í gær að þau hefðu sagt skilið við vopnahléið sem er nauðsynlegur liður í áætlun Annans.

Hægt er að lesa nánar um málið á vefsíðu BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×