Erlent

Sektir á mótmælendur hækkaðar í Rússlandi

BBI skrifar
Pútín segir lögin muni verja fólk gegn öfgafullum aðgerðum.
Pútín segir lögin muni verja fólk gegn öfgafullum aðgerðum. Mynd/AFP
Rússar samþykktu í dag umdeild lög sem leggja háar sektir við mótmælum. Fréttamaður BBC segir lögin gefa yfirvöldum aukið rými til að túlka hvar mótmæli megi eiga sér stað og í hvaða formi þau megi birtast.

Frumvarp til laganna var lagt fram af stjórnmálaflokknum Sameinað Rússland, sem er mjög tengdur forseta landsins Vladimir Pútin. Pútin hefur þegar skrifað undir lögin en hann hafði áður gefið út að hann myndi styðja þau.

„Í lögunum kristallast ótti ríkisstjórnarinnar við sitt eigið fólk," segir stjórnarandstæðingurinn Gennady Gudkov. Hann grunar að lögin muni leiða til borgarastyrjaldar, „Við vitum öll hvernig þetta endar: í blóði, fátækt og byltingu."

Mannréttindasamtök segja lögin brjóta gegn stjórnarskrá Rússlands og rétti fólks til fundafrelsis, þ.e. rétti til að safnast saman.

Með lögunum eru sektir fyrir mótmæli hækkaðar úr núverandi 5.000 rúbla hámarkinu (sirka 20 þúsund kr) og upp í 300.000 rúblur (rúmlega ein milljón) fyrir þátttakendur í mótmælum og 600.000 rúblur fyrir skipuleggjendur. Samkvæmt lögunum getur fólk hlotið sekt fyrir að taka þátt í ólöglegum mótmælum og fyrir að brjóta af sér í löglegum mótmælum.

Umfjöllun BBC um lögin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×