Erlent

Engisprettufaraldur ógnar lífi íbúa í Malí og Niger

Engisprettufaraldur ógnar nú lífi íbúa í Afríkulöndunum Malí og Niger. Bæði þessi lönd glíma við hörmungar fyrir þar sem borgarastríð geisar í Malí og hungursneyð er í uppsiglingu í Niger. Samtökin Amnesty International segja að ástandið í Malí hafi ekki verið verra í fimmtíu ár.

Engisprettufaraldur hefur ekki verið vandamál á þessum slóðum í langan tíma þar sem hann hefur hingað til verið kæfður í fæðingu með eiturúðunum í Líbýu og Alsír. Uppreisnin í Lýbíu og pólitískur órói í Alsír varð þess valdandi í vetur að ekkert var úðað.

Nú er hinsvegar átak í gangi í báðum þessum löndum til að draga úr viðkomu engisprettanna og þegar hefur eiturefnum verið úðað á hátt í 400 ferkílómetra svæði þar sem engispretturnar fjölga sér. Það er hinsvegar óljóst hvort þetta átak dugi til.

Engisprettur þessar éta þyngd sína á dag af öllu matarkyns sem þær komast yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×