Erlent

Bono afhendir Suu Kyi heiðursverðlaun

BBI skrifar
Mynd/AFP
Rokkarinn Bono úr hljómsveitinni U2 mun afhenda Aung San Suu Kyi æðstu heiðursverðlaun Amnesti International. Afhendingin mun fara fram í Dublin á Írlandi þann 18. júní næstkomandi, daginn eftir að Suu Kyi tekur við friðarverðlaunum Nobels.

Suu Kyi fékk Nobelsverðlaunin árið 1991 og verðlaun Amnesty árið 2009. Henni var ómögulegt að taka við verðlaununum þar sem hún hefur setið í stofufangelsi síðustu áratugi með hléum. Hún hefur ekki þorað að yfirgefa Búrma fyrr þó hún hafi haft tækifæri til þess af ótta við að vera ekki hleypt inn í landið aftur.

Suu Kyi er nú lögð af stað í fyrstu utanlandsferð sína í tvo áratugi. Í næsta mánuði hyggst hún ferðast um nokkur lönd Evrópu.

Bono er mikill aðdáandi Suu Kyi og árið 2009 tileinkaði hann henni röð tónleika með hljómsveitinni U2.

„Það er svo fátítt að sjá þokka og góðvild bera sigur af hernaðarmætti að þegar það gerist ættum við að hafa eins mikinn og glaðlegan hávaða og við getum," sagði Bono í ræðu þegar hann tilkynnti að hann myndi veita Suu Kyi verðlaunin. „Það verður frábært að fá að hitta hana í eigin persónu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×