Erlent

Setja al-Assad afarkosti

Stærsti uppreisnarhópurinn í Sýrlandi hefur sett forseta landsins afarkosti. Hópurinn sem kallar sig Hinn frjálsa her Sýrlands, hefur gefið Bashar al-Assad forseta tvo sólarhringa til þess að framfylgja vopnahléi því sem fylkingarnar sættus á fyrir tilstilli Kofi Annans erindreka Sameinuðu þjóðanna á dögunum.

Bregðist forsetinn ekki við innan tilsetts tíma mun hópurinn ekki telja sig lengur bundinn af vopnahléinu. Í skilmálum vopnahlésins er meðal annars ákvæði um að sýrlenskir stjórnarhermenn hverfi til herstöðva sinna þegar í stað en það hafa þeir ekki gert, heldur gert harðar árásir á þær borgir þar sem uppreisnarmenn njóta mests stuðnings.

Í gær fann hópur eftirlitsmanna frá Sameinuðu þjóðunum gröf þrettán manna sem allir höfðu verið skotnir til bana. Hinn frjálsi her Sýrlands er sagður illa vopnum búinn og því eigi hann ekki mikla möguleika gegn vel vopnuðum herjum Sýrlandsstjórnar.

Þrátt fyrir það stjórni hópurinn stórum hverfum í mörgum borgum landsins auk viðamikilla svæða á landsbygðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×