Erlent

Loftsteinadrífa skellur á Jörðinni

Bandaríski geimfarinn Don Pettit hefur mikið dálæti af því að deila ljósmyndum sínum. Þetta er afar jákvætt enda eru myndirnar hans vægast sagt sérstakar. Pettit tekur nefnilega ljósmyndirnar úr 400 kílómetra hæð og á rúmlega 28 þúsund kílómetra hraða.

Síðasta myndband geimfarans, sem tekið var úr Alþjóðlegu geimstöðinni, er samsett úr hundruðum ljósmynda sem hann tók 22. apríl síðastliðinn. Einmitt þá dundi Lyrid loftsteinadrífan á Jörðinni.

Í myndbandinu má sjá þegar loftsteinarnir falla í gegnum slæður norðurljósanna og verða loks að engu, hátt í lofthjúpi jarðarinnar.

Þetta einstaka náttúrufyrirbæri á sér stað þegar Jörðin ferðast í gegnum leifar halastjörnunnar Thatcher. Fyrst sást til drífunnar fyrir rúmlega 2.600 árum. Loftsteinarnir skella á Jörðinni á allt að 180 þúsund kílómetra hraða.

Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir ofan. Þá hefur Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) einnig birt myndband þar sem helstu verk Pettits eru tekin saman í eitt myndskeið — hægt er að nálgast myndbandið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×