Erlent

Lagarde: Engin áform um að slaka á kröfum til Grikkja

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. mynd/AFP
Ekki verður slakað á kröfum til Grikkja varðandi niðurskurð, segir Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún segist hafa meiri samúð með Afríkubörnum sem ekki geta menntað sig en Grikkjum sem lifa undir fátæktarmörkum.

Ljóst er að ekki er tekið út með sældinni að búa í Grikklandi um þessar mundir. Ríkið þiggur neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með nokkuð ströngum skilyrðum. Það helsta er, að skera niður ríkisútgjöld, við takmarkaða hrifningu Grikkja en skert ríkisútgjöld þýða skerta þjónustu.

Efnahagur Grikkja hefur minnkað um fimmtung síðan kreppan hófst. Grikkjum hefur verið gert skylt að lækk laun og draga úr útgjöldum hins opinbera til að fá fjárhagsaðstoð frá ESB og AGS.

Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hin franska Christine Lagarde, hefur skilaboð fyrir Grikki sem þurfa að sætta sig við skerta opinbera þjónustu um þessar mundir. Hún segir að hún hafi meiri samúð með börnum í Afríku sunnan Sahara, sem ekki geta menntað sig, en þeim íbúum Aþenu sem lifa nálægt fátæktarmörkum.

Lagarde lét ummælin falla í viðtallinu í Guardian eftir að hún varð spurð hvort hún gæti að vettugi virt þær verðandi mæður sem ekki gætu notið aðstoðar ljósmæðra í Grikklandi og sjúklinga sem þyrftu á lífsnauðsynlegum lyfjum að halda. Þá sagði hún að börn í Níger, sem þrjú þyrftu að deila einum stól og ættu aðeins kost á að mennta sig í tvær klukkustundir á dag, þau hefðu alla sína samúð og þyrftu á meiri hjálp að halda en fólk í Aþenu.

Lagarde segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi engin áform um að slaka á kröfum sínum til Grikkja. Niðurskurðarhnífurinn verði áfram á lofti með sama slagkrafti og verið hefur.

Hægt er að nálgast viðtalið á vefsíðu Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×