Eftirlitsmenn Sameinuðu Þjóðanna tilkynntu í dag að 32 börn hefðu fallið í Houla í gær. Yfirvöld í Sýrlandi halda því fram að erlendir hryðjuverkamenn hafi staðið að baki árásunum á borgina.
Árásin hefur vakið hörð viðbrögð hjá þjóðarleiðtogum og alþjóðlegum samtökum. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna, og Kofi Annan, erindreki Sameinuðu Þjóðanna og Arabandalagsins, fordæmdu árásina í sameiginlegri yfirlýsingu í gærkvöld. Þeir segja að atvikið sé svívirðilegt brot á alþjóðalögum.

Talið er að sendiherrar Bretlands í ráðinu muni fara fram á að Rússar þrýsti á ríkisstjórn Bashar al-Assads, forseta Sýrlands, að koma í veg fyrir áframhaldandi blóðsúthellingar í landinu. Hingað til hafa Rússar beitt neitunarvaldi sínu í Öryggisráðinu þegar kosið er um ályktanir vegna stöðu mála í Sýrlandi.
Samkvæmt AFP fréttaveituna hafa fleiri en 13 þúsund manns fallið í óöldinni í Sýrlandi frá því að byltingin hófst í mars í fyrra.
Fundur ráðsins hefst klukkan 18:30 að íslenskum tíma í dag.