Erlent

Segir götublöðin valdamestu fjölmiðla Bretlands

Tony Blair. Myndin er úr safni.
Tony Blair. Myndin er úr safni.
Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair, segir að valdamestu blöð Bretlands séu götublöðin Daily Mail og The Sun. Þetta sagði hann meðal annars í yfirheyrslum af Leveson nefndinni sem rannsakar nú tengsl fjölmiðla við stjórnmálamenn og lögreglu. Rannsóknin snýr að meintri spillingu breskra fjölmiðla, þá helst þeirra sem voru í eigu Roberts Murdochs. Um er að ræða beint framhald á yfirheyrslum vegna ólögmætra hlerana fjölmiðlanna.

Blair viðurkenndi í yfirheyrslunni að óheilbrigt samband hefði myndast á milli stjórnmálamanna í Bretlandi við fjölmiðla. Meðal annars vegna gríðarlega mikilvægs stuðnings fjölmiðlanna við stjórnmálaflokkanna. Í því samhengi sagði hann að enginn stjórnmálaflokkur gæti komist af án þess að eiga í góðum samskiptum við fyrrgreinda fjölmiðla. Hann sagði þó dagblaðið The Sun mikilvægara í pólitískum skilningi, sökum þess að blaðið er reiðubúið til þess að breyta um pólitíska afstöðu kjósi það svo.

Af þessum sökum sagði Blair að hann hefði ákveðið að hafa náin samskipti við fjölmiðlanna, þá ekki síst til þess að skilaboð stjórnvalda kæmust óbrengluð til lesanda. Þannig væri afstaða fjölmiðilsins til ríkisstjórnarinnar gríðarlega mikilvægur.

Blair tók hinsvegar fram að þrátt fyrir náin samskipti, og á stundum siðlausum verklagsreglum, þá væri breskir fjölmiðlar þeir bestu í heiminum.

Sjálfur kveinkaði fyrrverandi forsætisráðherrann sér undan fjölmiðlun. Þannig sagði hann eiginkonu sína, Cherie hafa leitað lögfræðilegs álits þrjátíu sinnum vegna umfjöllunar fjölmiðla um einkalíf hennar. Þá sagði hann Daily Mail hafa gengið allt of langt í herferð sinni gegn sér og konu sinni og umfjöllunin hafi haft blæ persónulegrar heiftar. Blair sagði slíka hegðun ekki heiðarlega fjölmiðlun, heldur beinlínis misnotkun á valdi.

Hægt er að lesa frekar yfirferð um málið á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×