Erlent

Ætluðu að fremja hryðjuverk í Danmörku

Tveir menn grunaðir um að leggja á ráðin um hryðjuverk í Danmörku voru handteknir í nótt að því er danska leyniþjónustan segir. Mennirnir, sem eru bræður, eru grunaðir um að tengjast herskáum íslamistum í Sómalíu.

Annar þeirra var handtekinn í Árósum en hinn á Kastrup flugvelli en hann var að koma aftur til landsins. Danska leyniþjónustan PET fullyrðir að með handtökunum hafi verið komið í veg fyrir yfirvofandi hryðjuverkaárás.

Mennirnir eru báðir danskir ríkisborgarar en af sómölskum uppruna, 22 og 23 ára gamlir. Þeir hafa búið í árósum í 16 ár. Haft er eftir talsmanni leyniþjónustunnar að í samtölum þeirra sem virðast hafa verið hleruð, hafi þeir rætt aðferðir til árásásar, hvaða skotmörk skyldi velja og hvers kyns vopn skyldi nota.

Þá hafa dönsk yfirvöld heimildir fyrir því að annar bróðirinn hafi fengið þjálfun hjá al-Shabab samtökunum í Sómalíu. Í tilkynningu frá leyniþjónustunni segir þrátt fyrir að bræðurnir hafi verið handteknir sé hættan á hryðjuverkaárás enn mikil. Bræðurnir koma fyrir rétt í Kaupmannahöfn síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×