Skoðun

Dauðyflin í Samfylkingunni

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
,,Þú ert bara foringjahollt dauðyfli sem styður leiðtoga þinn í þeirri helreið sem vinstristjórnin þröngvar ofan í þjóðholla íslendinga" væri líklega eitthvað sem hreytt yrði í mig, segðist ég vera meðlimur í Samfylkingunni (sem ég er) og stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar (sem ég er einnig). Í nokkur skipti hefur mér verið úthúðað í persónu eða á spjallkerfi DV sem foringjahækju og ungkrataskratta, fyrir þann mikla löst að taka þátt í stjórnmálastarfi.

Það er afar vinsælt að saka Samfylkingarfólk um að vera sem rakar tuskur þegar kemur að því að gagnrýna forystu sína og veita henni aðhald. Stuðningsmenn Samfylkingarinnar eru afar margir og hafa álíka margar skoðanir á því hvernig Samfylkingin eigi að stunda stjórnmál sín, enda er fylkingin stofnuð á grundvelli þess að innan hennar eigi að vera virk rökræða um þær ólíku hugsjónir sem innan hennar rúmast. Ég trúi því í fullri einlægni að þeir einstaklingar sem taka þátt í starfi Samfylkingarinnar, og í raun öllu stjórnmálastarfi, séu drifnir af eigin skoðunum og metnaði en ekki löngun til þess að halda dauðataki í pils- og jakkafalda leiðtoga sinna.

Þó mega flokksmenn liggja undir því ámæli að færa umræðuna of sjaldan á opinberan vettvang, þegar óánægja með störf flokksins og forystunnar knýr að dyrum. Vissulega er talað um að ekki megi varpa ljósi á sundrung innan stjórnmálaflokka með því að tala um hana á opinberum vettvangi en ég trúi því að stjórnmálastarf eigi að fara fram fyrir opnum dyrum.

Dæmi um þögn Samfylkingarfólks er sú staðreynd að flokkurinn hefur misst þriðjung fylgis síns í könnunum og enginn ansar þeirri óánægju almennings. Það stefnir í að helmingur þingmanna Samfylkingarinnar verði atvinnulausir eftir ár og enginn innan flokksins hefur velt því upp hvað skuli gera.

Ég tel að flokksmenn þurfi að bregðast við þessum válegu tíðindum. Ár er til kosninga og ég tel vera þörf á endurnýjun á umboði eða einstaklingum í forystu flokksins eigi síðar en í haust. En svo virðist sem Samfylkingarfólk óttist að veikja stöðu formannsins með umræðum um möguleg formannsskipti. Raunin er er hins vegar sú að ábyrg stjórnmálaöfl verða að hefja slíka umræðu þegar kannanir sýna fram á sögulega lægð, sér í lagi þegar kosningar þokast nær. Mat mitt er að því lengur sem umræðu um uppstokkun innan flokksins er haldið fjarri því örar renni tækifæri Samfylkingarinnar út í sandinn.

Ég styð ríkisstjórnina og ég styð forystu Samfylkingarinnar í þeim góðu verkum sem hafa unnist á undanförnum árum, sem og þeim sem framundan eru. En ljóst er að margir kjósendur eru mér ekki sammála og við því verður að bregðast ef Samfylkingin ætlar að halda áfram að kalla sig burðarflokk í íslenskum stjórnmálum. Ég kalla eftir því að Samfylkingarfólk hætti að forðast umræðu um forystuskipti og aðra gagnrýni á störf flokksins. DV spjallverjum er velkomið að halda áfram að kalla mig ungkrataskratta en Samfylkingin er ekki og á ekki að vera flokkur einhuga dauðyfla. Þau skilaboð verða að vera skýr.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×