Erlent

Hollende með 3% forskot á Sarkozy

Kjörstöðum hefur verið lokað í Frakklandi þar sem fyrri umferð forsetakosninga fór fram í dag. Francois Hollande er með um þriggja prósenta forskot á núverandi forseta samkvæmt fyrstu tölum.

Kjörstaðir voru opnaði klukkan átta í morgun að frönskum tíma og voru um þrettán milljónir, eða tæplega þrjátíu prósent kosningabærra Frakka búin að greiða atkvæði á hádegi.

Forsetahjónin voru þar á meðal en Nicolas Sarkozy, sem sækist eftir endurkjöri, etur nú kappi við níu frambjóðendur.

Mjög ólíklegt þykir að einn af þeim fái meira en helming allra atkvæða og því er viðbúið að síðari umferð fari fram. Francois Hollande, frambjóðandi franska sósíalistaflokksins hefur líklega fengið flest atkvæði í dag en samkvæmt útgönguspám fékk hann 28,4 prósent en Sarkozy 25,5%. Þannig má gera ráð fyrir að kosið verði á milli þeirra tveggja hinn 6.maí næstkomandi.

Um sjötíu og eitt prósent hafði mætt á kjörstað um sjöleytið að frönskum tíma en í síðustu forsetakosningum var þátttakan á þessum tíma tæplega sjötíu og fjögur prósent. Kjörstöðum var lokað fyrir rúmum hálftíma og kosningaþátttaka í fyrstu umferð mældist um áttatíu prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×