Erlent

Michael Jackson á tónleikaferðalag?

Kóngurinn gæti snúið aftur á svið.
Kóngurinn gæti snúið aftur á svið.
Poppgoðsögnin Michael Jackson gæti hugsanlega farið í tónleikaferð á næsta ári með bræðrum sínum.

Jackson lést í júní árið 2009 vegna ofneyslu lyfja en hér er ekki verið að tala um að söngvarinn rísi upp frá dauðum heldur myndi Jackson koma fram með hjálp heilmyndartækni, eða hologram eins og það nefnist á ensku.

Fyrr í þessum mánuði steig rapparinn Tupac Shakur á svið, þrátt fyrir að hafa verið látinn í meira en 15 ár, með hjálp þessarar tækni. Með nýjustu græjum var hægt að gera tölvuútgáfu af rapparanum sem var svo varpað á sviðið í þrívídd og undir voru spilaðar hljóðupptökur sem rapparinn tók upp á sínum tíma.

Sviðsframkoma Tupac þótti svo raunveruleg að viðstaddir vissu ekki í hvorn fótinn þeir áttu að stíga en með honum á sviðinu var rapparinn Snoop dog.

Jackie Jackson, bróðir Micheal Jackson, segir við breska götublaðið The Sun í dag að hann hafi verið svo hugfanginn af sviðsframkomu Tupac, að hann ásamt bræðrum sínum í Jackson 5 hljómsveitinni, íhugi nú að fá kónginn til að troða upp þegar hljómsveitin kemur saman í fyrsta skiptið yfir 20 ár á næsta ári.

Ef það verður raunin, að poppgoðsögnin Michael Jackson stígur aftur á svið, verður það að teljast mikil gleðitíðindi fyrir aðdáendur kappans.

Hægt er að sjá framkomu Tupac hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×