Erlent

Le Pen í sviðsljósinu fyrir seinni umferð forsetakosninganna

Þótt Francois Hollande sé spáð sigri í seinni umferð forsetakosninganna í Frakklandi er það sýnd veiði en ekki gefin. Mikið veltur þar á Marine Le Pen frambjóðenda Þjóðfylkingarinnar.

Francois Hollande forsetaefni Sósíalistaflokksins sigraði í fyrri umferð kosninganna og mun því etja kappi við Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta í síðari umferðinni. Hollande hlaut 28,6% atkvæða en Sarkozy rúmlega 27%. Þetta er nokkuð minni munur á þeim en skoðanakannanir gáfu til kynna fyrir kosningarnar. Hinsvegar er þetta í fyrsta sinn frá stofnun Fimmta lýðveldisins árið 1958 að sitjandi forseti vinnur ekki í fyrri umferð kosninganna.

Það var hinsvegar góður árangur Marine Le Pen, forsetaefnis Þjóðfylkingarinnar sem vakti mesta athygli en hún fékk yfir 18% atkvæða. Le Pen mun hugsanlega lýsa yfir stuðingi við Sarkozy í seinni umferðinni og ef slíkt gerist er sigur Hollande ekki öruggur. Sem stendur er Hollande hinsvegar með trausta forystu í seinni umferðinni samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í gærkvöldi.

Íslandsvinurinn Eva Joly náði aðeins 2% atkvæða. Hún er samt þegar nefnd sem væntanlegur dómsmálaráðherra Frakklands fari svo að Hollande sigri í seinni umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×