Erlent

Vísindamenn ráða í leyndardóma Satúrnusar

Vísindamenn við Geimferðastofnun Bandaríkjanna hafa náð ótrúlegum myndum af smávöxnum snjóboltum sem þjóta í gegnum hringi Satúrnusar.

Það skal þó tekið fram að þessir litlu snjóboltar er í raun rúmur hálfur kílómetri að stærð en þeir mynduðust þegar tungl Satúrnusar ruddu sér leið í gegnum hringi plánetunnar.

Það voru vísindamenn sem vinna að Cassini-Hyugens verkefninu sem greindu frá þessu í vikunni.

Hér má sjá hvernig hvernig F-hringur Satúrnusar rofnar og brenglast þegar þessir litlu hlutir æða í gegnum hann. Í kjölfarið þýtur urmull kristallaðra agna út í geiminn.mynd/NASA
Cassini leiðangurinn er einn sá merkilegasti í sögu NASA. Þetta litla geimfar hefur margsinnis hringað Satúrnus á síðustu árum og hefur birt plánetuna í áður óséðu ljósi.

Á meðal þess sem vísindamennirnir hafa uppgötvað eru tiltölulega smávaxnir hlutir sem æða í gegnum F-hring Satúrnusar og skilja eftir sig augljós ummerki. Milljónir agna þjóta út í víðáttu geimsins þegar þessir smávöxnu hlutir rjúfa hringi plánetunnar.

mynd/NASA
Hringir Satúrnusar eru samsettir úr billjónum kristallaða snjóbolta. Ekki er vitað með vissu hvernig hringirnir mynduðust upphafleg. Ein tilgáta gerir ráð fyrir að eitt eða nokkur af tunglum plánetunnar hafi splundrast í árekstri og þær agnir sem urður eftir hafi raðað sér saman vegna þyngdaráhrifa plánetunnar.

„F-hringurinn er eflaust furðulegasti hringur Satúrnusar," sagði Carl Murray en hann er í myndvinnslu hópi Cassini-verkefnisins. „Þessar myndir sýna að F-hringurinn er mun virkari en við héldum. Niðurstöðurnar sína að í F-hringnum má finna þúsundir hluta - margir hverjir eru kílómetrar í þvermál - sem mynda þetta ótrúlega sjónarspil."

Hægt er að lesa nánar um málið á Stjörnufræðivefnum.

Stjörnuáhugamönnum er síðan bent á að horfa á myndbandið hér fyrir ofan en þar má sjá myndir sem Cassini geimfarið hefur tekið - þar á meðal má sjá einn af þessum litlu bergrisum þjóta í gegnum F-hring Satúrnusar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×