Erlent

Vilja hækka verð á sígarettupakkanum í tíu þúsund krónur

Heilbrigðisyfirvöld á Nýja Sjálandi vinna nú að áætlun sem felur í sér að verð á sígarettupakkanum verði hækkað í 100 nýsjálenska dollara að yfir 10.000 krónur.

Þetta á að vera liður í því að gera Nýja Sjáland tóbakslaust fyrir árið 2025. Það er heilbrigðisráðuneyti landsins sem hefur þessar hugmyndir til skoðunar en John Key, forsætisráðherra landsins, telur að um alltof mikla verðhækkun sé að ræða.

Þá hafa margir bent á að svo hátt verð á sígarettum geri ekki annað en að stórauka smygl á þeim til landsins.

Í frétt um málið hjá Fairfax fréttastofunni í Nýja Sjálandi er haft eftir tóbaksvarnarmanni að um alltof mikla hækkun sé að ræða. Raunhæfara væri að hækka verð á sígarettupakkanum í um 5.000 krónur í áföngum á næstu 10 til 15 árum.

Verð á sígarettum á Nýja Sjálandi er þegar mjög hátt en pakkinn þar kostar nú rúmlega 2.000 krónur. Hátt í 700.000 Nýsjálendingar reykja í dag en það eru um 15% þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×