Erlent

Risaskjálfti undan ströndum Indónesíu

Gríðarlega öflugur jarðskjálfti reið yfir í morgun undan ströndum Aceh héraðs í norðurhluta Indónesíu. Fyrstu niðurstöður Bandarísku jarðfræðistofnunarinnar bentu til að skjálftinn hefði verið 8.9 stig en nú hefur talan verið minnkuð í 8,6 stig. Flóðbylgjuviðvörun er enn í gildi á gervöllu Indlandshafi. Ekki er ljóst enn sem komið er hvort flóðbylgja hafi myndast en yfirvöld í Aceh héraði óttast að allt að sex metra háar öldur geti skollið á strandhéruðum.

Á vefsíðu Washington Post segir að skjálftinn, sem varð á 33 kílómetra dýpi um 400 kílómetrum frá höfuðborg héraðsins, hafi fundist greinilega í Singapúr, Tælandi, Bangladess, Malasíu og á Indlandi, auk Indónesíu. Um jólin 2004 reið risaskjálfti yfir á svipuðu svæði og létust 230 þúsund manns í flóðbylgjunni sem fylgdi í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×