Erlent

Flóðbylgjuviðvörunum aflétt

Flóðbylgjuviðvörunum hefur nú verið aflétt á Indlandshafi en um tíma leit út fyrir að flóðbylgjur gætu skollið á Indónesíu og fleiri löndum sem liggja að hafinu. Í morgun reið risaskjálfti sem mældist 8,7 stig yfir undan ströndum Aceh héraðs og skömmu síðar fylgdi annar litlu minni, eða 8,2 stig í kjölfarið.

Engar flóðbylgjur mynduðust þó á Indlandshafi og því hafa viðvaranir þess efnis verið afturkallaðar. Mikið öngþveiti skapaðist víða þar sem fólki reyndi að flýja strandsvæðin og koma sér ofar í land.

Jarðskjálftarnir í morgun virðast því hafa verið af öðru tagi en stóri skjálftinn árið 2004 á sama svæði, þar sem ríflega 230 þúsund manns létust. Í þeim skjálfta hreyfðust flekamótin á hafsbotni lóðrétt, en í þessu tilviki hreyfðust þau lárétt. Það útskýrir hvers vegna engin bylgja hefur myndast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×