Erlent

Opinber starfsmaður gerði ekkert í 14 ár

Maðurinn gerði ekkert í 14 ár.
Maðurinn gerði ekkert í 14 ár. mynd/Getty
Fyrrverandi ríkisstarfsmaður í Þýskalandi opinberaði í vikunni að hann hafi ekki gert nokkurn skapaðan hlut á 14 ára tímabili sem hann starfaði hjá hinu opinbera.

Maðurinn, sem er 65 ára gamall, greindi frá þessu í opinskáu bréfi sem hann sendi samstarfsmönnum sínum. Hann hafði unnið á bæjarskrifstofu Menden frá því árið 1974. Vegna niðurskurðar var maðurinn síðan rekinn fyrr í þessum mánuði.

Í bréfinu montaði maðurinn sig af því að hafa fengið 745.000 evrur í laun á síðustu 14 árum. Upphæðin samsvarar rúmum 120 milljónum íslenskra króna.

„Frá þvi árið 1998 hef ég samviskusamlega mætt til vinnu, en í raun hef ég aldrei verið á staðnum," skrifaði maðurinn. „Ég fer því vel undirbúinn á eftirlaun - Adieu."

Maðurinn sakar bæjarstjórnina í Menden um að hafa skapað óskilvirkt kerfi á skrifstofu bæjarins. Þannig hafi störf og skyldur starfsmanna víxlast og horfið í skriffinnsku. Hann segir að yfirvöld í Menden hafi jafnvel ráðið annan mann sem átti að sinna sama verki og hann sjálfur.

Volker Fleige, borgarstjóri Mende, sagði að bréfið hafi komið honum í uppnám. „Hegðun mannsins er fyrir neðan allar hellur," sagði Fleige.

Fleige sagði að starfsmaðurinn hefði átt að leita til yfirmanna sinna vegna verkefnaskortsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×