Skoðun

Grískur harmleikur: Annar þáttur

Mikael Allan Mikaelsson skrifar
Tveir táknrænir en afar ólíkir atburðir áttu sér stað í Grikklandi í vikunni sem var að líða sem bera vísbendi um þær grafalvarlegu samfélagslegu hamfarir sem að Grikkir standa frammi fyrir.

Fyrri atburðurinn var þegar grískur 77 ára gamall ellilífeyrisþegi (og fyrrum lyfjafræðingur) skaut sjálfan sig í höfuðið á hinu fjölmenna Syntagma torgi í Aþenu, og skildi eftir bréf sem á stóð „Ég kýs fremur virðulegan endi en að horfast í augu við sorpið“.

Seinni atburðurinn var tilkynning frá Samtökum grískra íþróttamanna um þau myndu mögulega þurfa að hætta störfum vegna niðurskurðar hins opinbera á fjárframlögum til íþrótta, en þessi atburður gæti þýtt að Grikkir munu mögulega ekki geta tekið þátt í Ólympíuleiknunum í sumar í Lundúnum. Áfallinu fyrir sjálfsímynd grísku þjóðarinnar, að geta ekki tekið þátt í Ólympíuleikunum sem Grikkir sjálfir settu fyrst á laggirnar á 8.öld fyrir Krist, fá orð ekki lýst.

Í síðasta mánuði náðu Evrópusambandið (ESB), Evrópski seðlabankinn og Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn (AGS, en þrennan er núorðið betur þekkt sem Trójkan) samkomulagi við grísk stjórnvöld um nýtt neyðarlán upp á 130 milljarða evra. Þetta samkomulag á að koma í veg fyrir greiðsluþrot gríska ríkisins og endurspeglar örvæntingarfulla lokatilraun ESB til að koma í veg fyrir upplausn Evrusamstarfsins á kostnað grísku þjóðarinnar.

En sú nálgun á grísku efnahagskreppuna sem að Trójkan hefur tileinkað sér undirstrikar þá staðreynd að pólitískir og fjárhagslegir ávinningar einstakra áhrifaþjóða innan sambandsins (einkum Þýskalands og Frakklands) eru látnir ráða ferðinni, fremur en nokkur hagfræðileg skynsemi.

Efnahagsáætlun Trójkunar er að beita svokallaðri sveiflumagnandi aðlögun til að knýja fram innri gengisfellingu. Á mannamáli gengur þessi efnahagsáætlun út á að Grikkland gangi í gegnum blindandi niðurskurð í ríkisrekstri á meðan á kreppunni stendur með það markmið að auka atvinnuleysi sem myndi leiða til lækkunar á launakjörum. Þessi launalækkun myndi síðan draga úr framleiðslukostnaði sem myndi síðan mögulega gera Grikkland skilvirkara og samkeppnishæft. Með þeim hætti myndi Grikkland rétta úr kútnum með auknum útflutningi. Samkvæmt skilmálum Trójkunar ber grísku ríkisstjórninni að skera niður um 150 þúsund opinber störf fyrir 2015 og lækka lágmarkslaun um 20%.

Vandamálið er hins vegar það að það eru engar blikur á lofti um að þessi efnahagsáætlun muni gera nokkuð annað en að eyðileggja þau fáu innviði grísks samfélags sem enn eru til staðar og steypa þjóðinni í algera glötun. En atburðir liðinnar viku bera marks um það sem gríska samfélagið á í væntum. Fyrir forystuleiðtoga ESB skiptir þetta litlu máli, svo lengi sem að myntbandalagi evrunnar verði bjargað. Í fyrsta lagi hefur þessi leið verið farin áður, en fyrir tveimur árum gengust Grikkir undir samkomulag með ESB og AGS um ”björgunarpakka” eða neyðarlán upp á 110 milljarða evra, gegn þeim skilyrðum að gríska ríkisstjórnin tæki að sér sveiflumagnandi aðlögunar aðgerðir með opinberum niðurskurði, stórtækinni einkavæðingu og skipulags umbótum (sem mörg hver voru að vísu nauðsynleg). Nú tveimur árum seinna standa Grikkir frammi fyrir að þurfa á nýju neyðarláni að halda.

Afleiðingar fyrri efnhagsáætlunarinnar eru þær að skuldir grísku þjóðarinnar hafa vaxið úr 115% af þjóðarframleiðslu í 160% og atvinnuleysi farið úr 12% í 21%. Auk þess hefur sjálfsmorðstíðnin aukist gríðarlega milli ára, en á milli áranna 2009-2010 jókst hún um 25% og nýleg gögn benda til þess að tíðni sjálfsmorða hafi aukist um 40% á milli fyrstu ársfjórðunga áranna 2010 og 2011. Gríðarleg hnignun hefur einnig orðið í heilbrigðiskerfinu og glæpir á borð við þjófnað og morð hafa nánast tvöfaldast frá upphafi kreppunar. En að sama skapi eru ekki nokkrar vísbendingar um að innri gjaldfelling hafi átt sér stað í neinum mæli fram að þessu, þrátt fyrir þessar öfgafullu aðgerðir. Til að mynda er raungengi Grikklands enn hærra í dag en það var árið 2006.

Í öðru lagi er efnhagsáætlun Trójkunar svo viðkvæm að ekkert má út af bregða frá efnhagspám AGS, því annars myndi áætlunin riða til falls. Þetta getur ekki verið hughreystandi í ljósi þess að nánast allar efnhagsspár AGS um framvindu gríska efnhagsins á undanförnum árum hafa reynst rangar og ætíð gefið alltof bjarta forspá um stöðu mála. Til dæmis hafa spár AGS um atvinnuleysi á næsta ári breyst um þriðjung, en samkvæmt fyrstu endurskoðunn AGS var spáð að atvinnuleysi yrði um 14.5% en nú hefur þessi tala hækkað í 19.5%. Einnig hafa efnhagsspár um hagvöxt Grikklands skeikað um 6.9% en megnið af þessari breytingu á efnhagsspánni hefur einungis átt sér stað á síðastliðnu hálfu ári. Í þriðja lagi reiðir nýjasta efnahagsáætlun AGS að miklu leyti á tekjur af einkavæðingu á opinberum rekstri og eignum sem AGS spáir að verði um 35 milljarðar evra á næstu tveimur árum. Í raun þarf þessi spá að haldast því ef tekjur ríkisins af þessari einkavæðingu verða einungis þriðjungi minni en spáð er mun gríska ríkið skorta tekjur sem jafnast á við heil 5% af þjóðarframleiðslu, og áætlunin því fara langt af leið. Líkurnar á því að þessi efnhagsáætlun muni vera árangursríkari en sú fyrri eru hverfandi þar sem einungis á síðasta ári varð bæði gríska ríkisstjórnin og Trójkan fyrir gífurlegum vonbrigðum með ávinninginn af einkvæðingunni fram að þeim tímapunkti, en gríska ríkisstjórnin náði einungis að afla um 370 milljóna evra í tekjur af einkavæðingunni í stað þess 1.7 milljarðs evra sem stefnt var að. Auk þess benda nýleg gögn sem láku til fjölmiðla, rétt áður en samkomulagið um seinni björgunarpakkann náðist, til þess að markmiðið að afla 50 milljarða evra við einkavæðingu muni seinka um að minnsta kosti fimm ár. Einnig ber að nefna að í ljósi þess að mestöll Evrópa og Bandaríkin eru enn að reyna að vinna sig upp úr kreppunni (eða koma í veg fyrir þá næstu) á Grikkland að öllum líkindum eftir að þurfa að selja ríkiseignir sínar (sem mestmegnis eru fasteignir) á brunasölu.

Það sem ku vera hvað dapurlegast við þessa efnahagsáætlun er sú staðreynd að jafnvel ef að allt gengur að óskum Trójkunar, á Grikkland eftir að þurfa þola áratuga langt skeið samdráttar og stöðnunar. Samkvæmt spám efnhagsáætlunarinnar munu skuldir Grikklands nema allt að tæplega 130% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2020 og er þessi skuldartala jafnvel hærri en sú sem var í Grikklandi áður en ESB og AGS hófu að íhlutast í efnahagsáætlun Grikkja. Þessi tala getur hækkað upp í allt að 160% ef kreppan verður dýpri en spáð er.

Þetta ætti samt sem áður ekki að koma á óvart. Í upphafi kreppunnar voru skuldir Grikklands um 115% af þjóðarframleiðslu, en þó svo að þessi upphæð sé vissulega of há hefði hún getað verið viðráðanleg svo lengi sem Grikkir fengju að greiða niður af henni á viðráðanlegum vöxtum. Þar sem að skuldir Grikklands nema einungis um 2.5% af vergri þjóðarframleiðslu Evrusvæðisins hefði Evrópski Seðlabankinn auðveldlega geta keypt upp skuldir Grikkja og gefið þeim lægri vexti á láninu, gegn þeim skilyrðum að Grikkir gengju í gegnum samfélagslegar og efnhagslegar umbætur. Þetta var því miður ekki raunin. Í staðinn voru Grikkir látnir auka skuldir sínar með fyrra neyðarláninu á óbærilegum vöxtum (tæplega 7%, en til samanburðar þurfa Ítalía og Portúgal einungis að borga um 4% af sínum lánum) og ganga undir blindan niðurskurð sem varð til þess valdandi að draga úr hagvexti, og þar af leiðandi auka á skuldabyrðina.

Það sem Grikkir eiga og þurfa að gera þessa stundina er að fara í greiðsluþrot og yfirgefa evrusvæðið. Einnig þurfa þeir að ganga í gegnum stórtækar samfélagslegar og efnahagslegar umbætur, og þá sérstaklega takast á við það umfangsmikla skattaundanskot og þá pólitísku spillingu sem á sér stað þar í landi. Að sjálfsögðu yrði þetta engin draumalausn; kostnaðurinn á innfluttum vörum (t.d. lyfjum og bensíni) myndi rjúka upp og myndi efnahagnum stafa mikil ógn af verðbólgu. Með því að ganga út úr evrusamstarfinu og taka upp eigin gjaldmiði myndu Grikkir hins vegar ná fram hraðri gengisfellingu sem myndi leiða til aukinnar samkeppnishæfni sem myndi leiða til hagstæðs viðskiptajöfnuðs og því skapa stöðugan og sjálfbæran hagvöxt. Fjármagnið sem myndi leysast út með umbótunum gætu Grikkir notað bæði til að styrkja innlenda framleiðslu (t.d. á landbúnaði) ásamt hinum ýmsu innviðum samfélagsins (t.d. gatnagerð, heilbrigðisgeirann og ferðaþjónustu).

Í raun væri það afskaplega skynsamlegt af grísku ríkisstjórninni að leggjast í slíkar opinberar framkvæmdir, þar sem slíkt er óhjákvæmilegt fyrr eða síðar, en með því að ráðast í slíkar framkvæmdir á þessum tímapunkti myndi gríska ríkið hagnast, þar sem verðið á flestum hráefnum er í lágmarki vegna kreppunnar (þ.e. samdráttar í bæði ríkis- og einkageiranum í Bandaríkjunum og Evrópu). Einnig myndu opinberar framkvæmdir skapa atvinnu sem myndi bæði stuðla að uppbyggingu innlends markaðs með aukinni neyslu og eftirspurn, sem myndi síðan gera innlenda einkavæðingu bæði líklegri og árangursríkari. Þrátt fyrir að sú mikla verðbólga sem yrði til við útgöngu Grikkja úr myntbandalaginu yrði vitanlega þungur baggi á grísku þjóðinni, yrði hann lítilvægur í samanburði við þann gríðarlega samfélagsskaða sem verður til vegna langvarandi skorts á hagvexti og hás atvinnuleysis, sem verður raunin ef Grikkland tekur ekki upp sinn eigin gjaldmiðil.




Skoðun

Sjá meira


×