Viðskipti innlent

FME: Tryggja skal fullar endurgreiðslur vegna gengislána

Í framhaldi af gengislánadómi Hæstaréttar hefur Fjármálaeftirlitið (FME) beint þeim tilmælum til lánastofnanna að þær meti hvort rétt sé að senda frekari greiðsluseðla til slíkra skuldara, og tryggja skuldurum sem reynast hafa ofgreitt miðað við nýjan endurreikning fullar endurgreiðslur.

Fjallað er um málið á vefsíðu FME. Þar segir að með vísan til þeirrar réttaróvissu sem upp er komin varðandi endurreikning á gengistryggðum láns- og eignarleigusamningum, sbr. dóm Hæstaréttar ... hefur Fjármálaeftirlitið beint neðangreindu til lánastofnana, lánastofnana sem stýrt er af slitastjórn og dótturfélaga lánastofnana í slitameðferð.

„Lánastofnunum ber að leggja mat á það hver möguleg áhrif dómsins, og þess endurreiknings sem af honum hlýst, verða á eigið fé þeirra, sbr. bréf Fjármálaeftirlitsins dags. 27. febrúar sl. Ef líkur eru á að nýr endurreikningur í samræmi við dóminn leiði í ljós að tilteknir skuldarar teljast mögulega hafa ofgreitt og ekki er unnt að skuldajafna þeim ofgreiðslum í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu ber lánastofnunum að:

Meta hvort rétt sé að senda frekari greiðsluseðla til slíkra skuldara, og tryggja skuldurum sem reynast hafa ofgreitt miðað við nýjan endurreikning fullar endurgreiðslu.

Þá hefur Fjármálaeftirlitið minnt lánastofnanir á þann valkost að þær geti boðið skuldurum, sem teljast mögulega hafa ofgreitt, upp á það úrræði að greiða inn á kröfu samkvæmt greiðsluseðli með greiðslu inn á sérstakan geymslureikning þar til nýjum endurreikningi og uppgjöri er lokið.

Jafnframt hefur Fjármálaeftirlitið beint því til lánastofnana að grípa ekki til íþyngjandi vanefndaúrræða gagnvart skuldurum, s.s. á grundvelli laga um nauðungarsölu og vörslusviptinga á grundvelli samningsskilmála, í þeim tilvikum þar sem óvissa kann að vera til staðar um ætluð vanskil."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×