Viðskipti innlent

Árni Finnsson segir það ólöglegt að flytja inn sorp frá Bandaríkjunum

Sorpeyðingarstöðin Kalka.
Sorpeyðingarstöðin Kalka. Mynd / Vilhelm
Innflutningur á erlendu sorpi og spilliefnum frá Bandaríkjunum er ólöglegur samkvæmt áliti Árna Finnssonar, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands, en hann sendi þingmönnum bréf þess eðlis í gær þar sem hann áréttar að slíkur innflutningur sé ólöglegur samkvæmt svokölluðum Basel-samningum, sem Bandaríkjamenn eru ekki búnir að fullgilda.

Ástæðan fyrir því að Árni sendir þingmönnum þessa áréttingu er vegna þess að Reykjanesbær íhugar að selja sorpeyðingarstöðina Kölku til bandarísks félags sem hyggur á sorpinnflutning sem þeir stefna svo á að eyða hér á landi.

Vísir greindi frá því í gær að þessi hugmynd er afar umdeild innan bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, þannig leggjast Samfylkingarmenn alfarið gegn hugmyndinni.

Þannig sagði Friðjón Einarsson í viðtali við Víkurfréttir: „Þetta er ekki beint huggulegt að hugsa sér mengun frá stærri stöð yfir golfvöllinn í Leiru og annað nágrenni. Það er heldur ekki hægt að segja að þetta sé ferðaþjónustu til framdráttar, spúandi reykur allan sólarhringinn."

Í tilkynningu frá Reykjanesbæ í lok febrúar segir að fyrirtækið ætli sér að brenna sorp og spilliefni frá dótturfélagi sínu í Kanada. Þess má geta að Kanada var eitt fyrsta landið sem fullgilti Basel samninginn.

Það hefur gengið brösulega að selja sorpeyðingarstöðina. Þannig reyndi bæjarfélagið að ná samningum við erlenda fyrirtækið Waste Energy Management ehf. árið 2010. Það náðist þó ekki.

Það var svo í lok febrúar sem bæjarfélagið lýsti því opinberlega að fyrirtækið Triumvirate Environmental hefði lýst sig reiðubúið til að greiða allt að 10 milljónum Bandaríkjadala, eða jafnvirði um 1.250 milljóna íslenskra króna, fyrir eignir Kölku. Þess má geta að skuldir Kölku nema 950 milljónir króna.

Hægt er að lesa bréf Árna í heild sinni á vef Smugunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×