Viðskipti innlent

Fundað um makrílveiðar á Hótel Sögu

Rúmlega fjörutíu fulltrúar Evrópusambandsins, Noregs, Færeyja, Íslands og Rússlands funda næstu þrjá daga um Makrílveiðar á Hótel Sögu. Mikil harka hefur einkennt viðræður um þetta eldfima mál en löndin freista þess að ná samkomulagi um fyrirkomulag veiðanna sem allir geti sætt sig við.

Miklir hagsmunir eru í húfi í Makríldeilunni. Á síðasta ári var Makríllinn sú fisktegund sem skilaði næst mestum tekjum inn í íslenskt þjóðarbú úr sjávarútvegi, á eftir þorski.

Makríldeilan snýst um hvernig þessum veiðum skuli háttað, þ.e. hversu mikið hver þjóð á að fá að veiða úr heildarstofninum. Mikið ber á milli, samkvæmt heimildum fréttastofu.

Fulltrúar Evrópusambandsríkja á fundinum, ekki síst Íra og Skota, hafa talið eðlilegt að hlutur Íslendinga í heildar veiðistofni Makríls sé á milli 5 og 7 prósent, en hluturinn hefur verið 16 til 17 prósent nú. Mikið ber því í milli, og báðir aðilar hafa ekkert gefið eftir til þessa.

Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES) um makrílveiðarnar hljóðaði upp á 646 þúsund á síðasta ári. Þar sem ekkert samkomulag náðist settu ríkin sér einhliða kvóta og var reyndin sú að rúmlega 900 þúsund tonn voru veidd. Hlutdeild Íslands í þeim kvóta var 146,8 þúsund tonn.

Markmið viðræðnanna er að tryggja sjálfbærar veiðar.

Viðræðunum lýkur á föstudag. Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum, vildi ekkert tjá sig um viðræðurnar í dag þegar eftir því var leitað frekar en fulltrúar Evrópusambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×